„Þetta var vinnslusigur“

Breiðablik sigraði Selfoss í dag.
Breiðablik sigraði Selfoss í dag. Árni Sæberg

„Við rifum okkur upp eftir tvö jafntefli í síðustu leikjum og það var meiri kraftur í liðinu í dag en verið hefur að undanförnu,“ sagði Ólafur Pétursson, aðstoðarþjálfari Breiðabliks, eftir 2:1 sigur liðsins á Selfossi í Pepsi-deild kvenna í dag.

„Ég er mjög ánægður með sigurinn. Það voru erfiðar aðstæður hérna í dag og vindurinn stjórnaði miklu. Við stjórnuðum fyrri hálfleiknum og þær stjórnuðu seinni hálfleiknum út af vindi. En ég er fyrst og fremst ánægður með stelpurnar, þetta var vinnslusigur hjá okkur,“ sagði Ólafur í samtali við mbl.is.

Blikar höfðu verðskuldaða forystu í leikhléi og héldu sjó í seinni hálfleik þó að Selfoss hafi stjórnað leiknum.

„Við vorum sátt með stöðuna í hálfleik, að vera 2:0 yfir, og það dugði okkur þó að við hefðum vissulega getað skorað fleiri mörk. Þó að Selfoss hafi haft yfirhöndina í seinni hálfleik var ekkert stress hjá okkur. Sonný [Lára Þráinsdóttir] átti eina frábæra markvörslu en annars voru þær ekki að skapa mikið á móti okkur. Við vorum ívið hættulegri fram á við ef eitthvað var.“

Nú er langt frí fram undan í Pepsi-deildinni en Ólafur segir að þrátt fyrir það muni leikmenn ekki liggja með tærnar upp í loft.

„Já, það er mánuður í næsta leik í móti þannig að við höfum nóg að gera á æfingavellinum á meðan. Það er bikarleikur eftir tæpan hálfan mánuð við Keflavík. Liðið fær nokkra daga í frí eftir bikarleikinn en annars erum við bara að æfa á fullu,“ sagði Ólafur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert