Gríðarlega mikilvægur leikur

KR-ingar fagna eftir að Óskar (númer 22) skoraði fyrra mark …
KR-ingar fagna eftir að Óskar (númer 22) skoraði fyrra mark þeirra í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Kantmaðurinn knái, Óskar Örn Hauksson, skartaði myndarlegu glóðarauga eftir 2:1-sigur KR-inga gegn Valsmönnum í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Hann skoraði fyrra mark KR úr aukaspyrnu en eftir leiki kvöldsins er KR í 6. sæti með 9 stig.

„Þetta var gríðarlega mikilvægur leikur í raun fyrir bæði lið. Þetta var bara flottur leikur. Þeir skora sitt mark alveg í lokin, annars var þetta nokkuð öruggur leikur hjá okkur,“ sagði Óskar við mbl.is eftir leikinn en KR-ingar komust í 2:0 áður en Valur minnkaði muninn á 90. mínútu.

Aðspurður sagðist Óskar telja að leikurinn hefði verið besta frammistaða Vesturbæinga í sumar. „Ég held að það sé óhætt að segja það. Við komum flottir inn í leikinn og mér finnst við setja tóninn strax í byrjun. Þetta gefur liðinu sjálfstraust og við erum í þessu til að vinna leiki, þannig að þetta gefur okkur mikið.“

KR-ingar féllu úr leik í bikarkeppninni síðastliðin miðvikudag þegar fyrstudeildarlið Selfoss kom í Vesturbæinn og vann eftir framlengdan leik. Þeim þótti því mikilvægt að svara vel fyrir sig í kvöld. „Það er nokkuð sem má ekki gerast. Við vitum upp á okkur skömmina varðandi það. Þetta var því mikilvægur leikur upp á margt að gera.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert