Svara Lars og Heimi á vellinum

Viðar Örn Kjartansson í búningi Malmö.
Viðar Örn Kjartansson í búningi Malmö. Ljósmynd/@Malmo_FF

Viðar Örn Kjartansson, framherji Malmö í Svíþjóð, segir að svar sitt við því að Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson skyldu ekki velja hann í EM-hóp Íslands í knattspyrnu verði að standa sig enn betur með sínu liði og láta verkin tala.

Viðar skoraði í gær sína aðra þrennu fyrir Malmö á tímabilinu í 4:1 útisigri á Östersund og er nú næstmarkahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar með 8 mörk í 12 leikjum en fimm þeirra hafa komið í síðustu þremur leikjunum.

„Ég hef verið í hópnum í tvö ár og svo völdu þeir bara þrjá sóknarmenn þegar til kom. Hafi það verið vegna þess að ég skoraði ekki í fyrstu leikjum tímabilsins finnst mér það dálítið sérstakt," sagði Viðar við Aftonbladet eftir sigurinn í gær.

„En það skiptir ekki máli hvað ég segi um þetta í fjölmiðlum. Ég get bara svarað fyrir mig á vellinum og það hef ég gert. Mér líður vel með það," sagði Viðar.

Hann er einn þeirra leikmanna sem eru til taks ef meiðsli koma upp í íslenska hópnum sem verður endanlega staðfestur til UEFA á þriðjudaginn. Kolbeinn Sigþórsson hefur verið frá vegna meiðsla og er stærsta spurningarmerkið eins og staðan er núna.

„Ég er tilbúinn ef með þarf. En liðsins vegna vona ég að Kolbeinn verði með," sagði Viðar Örn Kjartansson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert