„Óvenjuleg staða en skemmtileg“

Þorri Geir Rúnarsson
Þorri Geir Rúnarsson mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Miðjumaðurinn sterki Þorri Geir Rúnarsson sagði of mikið hafa slitnað á milli miðju og varnar hjá Stjörnunni á síðustu tuttugu mínútum leiksins gegn Breiðabliki í kvöld. 

Breiðablik sigraði 3:1 eftir að staðan hafði verið markalaus eftir rúmlega 70 mínútna leik. „Eftir að við fengum fyrsta markið á okkur þá byrjaði að slitna svolítið í sundur hjá okkur. Við reyndum að sækja á þá en þá tapaðist eiginlega leikurinn. Hlutirnir féllu ekki beint fyrir okkur í dag en við hefðum klárlega átt að vera búnir að nýta færin sem höfðu skapast áður en Breiðablik skoraði fyrsta markið,“ sagði Þorri þegar mbl.is ræddi við hann að leiknum loknum. 

Stjarnan er ásamt tveimur öðrum liðum stigi á eftir Breiðabliki sem komst í toppsætið. Hvernig sér Þorri fyrir sér að toppbaráttan komi til með að þróast? „Það kemur allt í ljós. Þetta er heldur óvenjuleg staða en skemmtileg. Fleiri lið eru með í baráttunni en oft áður sem gerir þetta meira spennandi. Öll lið eru að taka stig af öllum og þannig er þetta skemmtilegast,“ sagði Þorri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert