„Þetta var algjör stuldur“

Ágúst Gylfason, Ólafur Páll Snorrason.
Ágúst Gylfason, Ólafur Páll Snorrason. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, var bæði sáttur og ósáttur eftir leik liðsins gegn Fylki í sjöttu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Liðin skildu jöfn, 2:2, en Fjölnismenn mega teljast heppnir að hafa landað einu stigi, þar sem Fylkir var sterkari aðilinn nánast allan leikinn.

„Mér fannst við koma mjög sterkir til leiks fyrstu mínúturnar og setjum á þá mark. Ég hélt að þetta yrði bara algjör veisla hérna og að við myndum eiga flottan leik. Sú varð nú ekki raunin og þetta snerist algjörlega við. Ég hef ekki skýringar á því hvað gerðist en menn virkuðu bara þungir og það gekk ekkert upp,“ sagði Ágúst eftir leik.

Tobias Salquist jafnaði metin í uppbótartíma og Ágúst var ekkert að fela sína skoðun á því jöfnunarmarki.

„Þetta var algjör stuldur. Við áttum ekki skilið að fá eitt stig í kvöld. Að því sögðu, þá þiggjum við auðvitað stigið og við sýndum karakter að halda áfram og knýja fram jöfnunarmarkið. Við vanmátum alls ekki Fylki, enda með hörkulið. Þeir áttu að taka öll stigin, svo einfalt er það,“ sagði Ágúst að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert