Snilldarmark Arnórs gegn Ungverjum (myndskeið)

Eiður Smári Guðjohnsen og Arnór Guðjohnsen í landsliðsbúningum.
Eiður Smári Guðjohnsen og Arnór Guðjohnsen í landsliðsbúningum. mbl.is/Bjarni J. Eiríksson

Arnór Guðjohnsen skoraði eftirminnilegt mark gegn Ungverjalandi í undankeppni HM á Laugardalsvelli í júní árið 1993. Sonur hans, Eiður Smári, er í íslenska landsliðinu eins og flestir vita sem mætir Ungverjalandi á EM í dag. 

Arnór skoraði síðara mark Íslands í 2:0 sigri hinn 16. júní fyrir tuttugu og þremur árum. Vippaði Arnór snyrtilega yfir markvörð Ungverja úr þröngri stöðu eftir sendingu Ólafs Þórðarsonar og áttu líklega flestir von á fyrirgjöf frá Arnóri. Aðdragandi marksins hefst eftir eina mínútu í meðfylgjandi myndskeiði úr leiknum. 

Eyjólfur Sverrisson núverandi þjálfari U-21 árs landsliðs Íslands skoraði fyrra mark Íslands eftir undirbúning Arnars Gunnlaugssonar sem á dögunum var ráðinn til KR. Arnar var ólíkt hárprúðari á þessum árum heldur en síðar á ferlinum. 

Ef til vill kemur Eiður við sögu gegn Ungverjum á EM í Frakklandi í dag en hann spilaði ekki gegn Portúgal. Eiður hefur skorað gegn Ungverjalandi en hann skoraði í báðum leikjunum gegn Ungverjum í undankeppni HM 2006. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert