Getum unnið Brøndby á góðum degi

Bjarni Ólafur Eiríksson telur að Valur eigi raunhæfa möguleika á …
Bjarni Ólafur Eiríksson telur að Valur eigi raunhæfa möguleika á að slá Brøndby úr leik. mbl.is/Golli

Bjarni Ólafur Eiríksson, fyrirliði knattspyrnuliðs Vals, var þokkalega sáttur með andstæðing liðsins í fyrstu umferð Evrópudeildarinnar, en liðið mætir danska liðinu Brøndby. Bjarni Ólafur segir að Brøndby sé vissulega sterkari en Valur á pappírnum, en Valur eigi þó raunhæfa möguleika á að komast áfram. 

Bjarni Ólafur var leikmaður Silkeborg þegar Valur mætti Brøndby árið 2006 sá leik liðanna í Danmörku. Valur gerði markalaust jafntefli við Brøndby á heimavelli, en laut svo í lægra haldi, 3:1 á útivelli og féll þar af leiðandi úr leik. Bjarni Ólafur vonast til þess að Valur geti gert betur að þessu sinni.

„Það voru vissulega slakari andstæðingar í pottinum sem hefði verið þægilegra að mæta, en á móti kemur að ferðalagið er þægilegt og það verður gaman að etja kappi við Brøndby. Það verður gaman að máta sig við sterkt lið á skandínavískan mælikvarða. Ég sá leikinn í Danmörku þegar Valur mætti Brøndby árið 2006 og það verður gaman að taka þátt í þetta skiptið,“ sagði Bjarni Ólafur í samtali við mbl.is.

„Við ætlum okkur að reyna að halda boltanum og spila skemmtilegan og árangursríkan fótbolta á heimavelli eins og við erum vanir. Það gæti svo orðið okkar hlutskipti að verjast og beita skyndisóknum þegar við mætum þeim á útivelli. Brøndby ætti að fara áfram og pressan er á þeim, en við teljum okkur eiga fína möguleika á að komast áfram,“ sagði Bjarni Ólafur enn fremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert