Bikartapið notað til að kveikja í mönnum

Halldór Orri Björnsson lék vel í kvöld.
Halldór Orri Björnsson lék vel í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

Halldór Orri Björnsson, leikmaður Stjörnunnar, var ánægður eftir 1:0-sigur Garðbæinga á ÍBV í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Sigurinn var langþráður en Stjarnan vann síðast deildarleik fyrir rúmlega mánuði.

„Við vorum ekki búnir að vinna ég veit ekki hvað marga deildarleiki í röð. Einnig erum við dottnir út úr bikarnum þannig að þetta var mjög mikilvægt fyrir okkur,“ sagði Halldór Orri við mbl.is eftir leikinn í Garðabænum í kvöld.

„Mér fannst leikurinn frekar jafn og opinn í fyrri hálfleik. Þetta var bara hörkuleikur og við þurftum að hafa mikið fyrir þessum sigri,“ bætti Halldór Orri við en hann lagði upp sigurmark Stjörnunnar sem Arnar Már Björgvinsson skoraði eftir tæplega hálftíma leik.

„Auðvitað vorum við með það bak við eyrað og notuðum það til að peppa okkur upp. Það var sárt að detta út úr bikarnum svona snemma,“ sagði Halldór aðspurður hvort tapið gegn Eyjamönnum í bikarkeppninni fyrir tveimur vikum hefði verið notað til að kveikja í Stjörnumönnum fyrir leikinn.

Guðjón Baldvinsson fékk rautt spjald á síðustu mínútu leiksins en margir ráku upp stór augu við dóminn. Við nánari skoðun virðist Guðjón hafa slegið til leikmanns ÍBV. Halldór sá atvikið ekki og gat því lítið tjáð sig um málið:

„Ég sá ekki neitt. Þetta gerðist alveg úti í horni og við vorum flestir aftarlega á vellinum. Ég hef ekki hugmynd,“ sagði Halldór Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert