Frábær endurkoma Ólsara

Hér minnkar Hrvoje Tokic muninn fyrir Ólsara.
Hér minnkar Hrvoje Tokic muninn fyrir Ólsara. Ljós­mynd/​Al­fons Finns­son

Víkingur Ólafsvík vann gríðarlega sterkan sigur á Þrótti þegar liðin mættust í níundu umferð Pepsi-deildar karla. Lokatölur urðu 3:2 en Þróttur komst í 2:0 eftir aðeins þriggja mínútna leik.

Kuldalegir áhorfendur í Ólafsvík voru varla sestir þegar Þróttarar komust  yfir með fyrstu sókn leiksins. Thiago Borges þræddi boltann í gegnum vörn Ólsara og Brynjar Jónasson skoraði af mikilli yfirvegun framhjá Cristian Liberato, markveði Víkings.

Markið kom sem köld vatnsgusa framan í heimamenn og ekki skánaði ástandið í þeirra herbúðum aðeins 70 sekúndum síðar. Útspark Arnars Darra rataði á kollinn á Brynjari sem fleytti boltanum áfram “a-la Kolbeinn”. Vilhjálmur Pálmason var skyndilega á auðum sjó og aftur var nýtingin á færinu til fyrirmyndar hjá Þrótturum.

Hrvoje Tokic minnkaði muninn með góðum skalla og staðan að loknum fjörugum fyrri hálfleik var 2:1, gestunum í vil.

Seinni hálfleikur var lengstum ekki eins skemmtilegur og sá fyrri en lokakaflinn var heldur betur líflegur. Varamaðurinn Alfreð Már Hjaltalín jafnaði metin á 84. mínútu en á þessum kafla lá mikið á vörn Þróttara.

Endurkoma heimamanna var svo fullkomnuð í uppbótartíma þegar Aleix Egea skallaði hornspyrnu William Domingues í markið og Ólsarar halda því áfram ótrúlegu gengi sínu á heimavelli en þar hafa þeir ekki tapað síðan í ágúst 2014.

Þróttarar fagna eftir að hafa komist í 2:0 í Ólafsvík …
Þróttarar fagna eftir að hafa komist í 2:0 í Ólafsvík í kvöld. Ljósmynd/Alfons Finnsson
Víkingur Ó. 3:2 Þróttur opna loka
90. mín. Víkingur Ó. fær hornspyrnu Spenna!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert