Við erum komnir með smá fiðring í magann

Damir Muminovic hefur leikið vel í sumar.
Damir Muminovic hefur leikið vel í sumar. mbl.is/Eva Björk

Varnarjaxlinn Damir Muminovic hlakkar til Evrópuleiks Breiðabliks gegn Jelgava frá Lettlandi í 1. umferð Evrópudeildarinnar í knattspyrnu. Fyrri leikur liðanna fer fram í kvöld en flautað er til leiks á Kópavogsvelli klukkan 19.15.

„Þetta er fyrsti Evrópuleikurinn hjá ansi mörgum í Blikaliðinu þannig að við erum komnir með smá fiðring í magann,“ sagði Damir en hann segir að Blikar viti ekki mikið um andstæðinga kvöldsins:

„Jelgava hefur verið eitt af sterkustu liðum í Lettlandi undanfarin ár og komist í Evrópukeppni þrjú ár í röð. Í fyrra slógu þeir búlgarskt lið út í fyrstu umferð og féllu síðan naumlega út gegn makedónsku liði. Þeir kunna því eitthvað fyrir sér í knattspyrnu,“ bætti Damir við.

Breiðablik hefur ekki spilað í Evrópukeppni síðan árið 2013 þegar þeir duttu út í vítaspyrnukeppni í eftirminnilegum leik gegn Aktobe frá Kazakstan. Síðan þá hefur orðið töluverð breyting á Blikaliðinu og eru einungis Gunnleifur Gunnleifsson, Andri Rafn Yeoman og Ellert Hreinsson eftir í leikmannahópnum.

„Við erum margir sem erum að spila okkar fyrsta Evrópuleik og eins og gefur að skilja hlökkum við mikið til. Við vonum að áhorfendur fjölmenni á leikinn og láti ekki EM trufla sig of mikið, sagði Damir brosandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert