Með ákveðna reglu í hundrað ár

Gunnleifur Gunnleifsson með boltann í leiknum í Grafarvogi í kvöld.
Gunnleifur Gunnleifsson með boltann í leiknum í Grafarvogi í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Breiðabliks, sem varð 41 árs fyrir nokkrum dögum, varði vítaspyrnu og var öruggur í marki Kópavogsliðsins í kvöld þegar það vann góðan útisigur á Fjölni, 3:0, í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

Gunnleifur sagði við mbl.is eftir leikinn að þótt mörkin hefðu komið í kvöld en liðið skorað lítið í síðustu leikjum hefði ekki mikið breyst.

„Í þessu jafna Íslandsmóti má ekki misstíga sig mikið en við höfum misstigið okkur dálítið undanfarið. Alls ekki þannig samt að það hafi verið einhver krísa. Við náðum ekki að koma boltanum í netið á móti Skagamönnum um daginn þó að við hefðum verið með boltann yfir 80 prósent af leiknum og það var einhver panik út af því.

En það hefur gengið illa að skora undanfarið, það hefur helst staðið ykkur fyrir þrifum, ekki satt?

„Jú, það er eitthvað sem við höfum alveg áttað okkur á. Það eina sem skiptir máli í þessu er að ná í þau úrslit sem þarf, koma boltanum oftar yfir marklínuna en hinir gera og vinna leiki. Það er aðalatriðið í öllu, alveg sama hvernig við spilum. Það eina sem menn muna eftir eru úrslitin í leikjunum og stigasöfnunin.

Við vorum með fína holningu á liðinu á móti Akranesi, sköpuðum okkur færi og varnarleikurinn var góður. Munurinn er bara sá að við náðum að skora núna en ekki í síðasta leik. Það breytir bara öllu.“

Munar ekki miklu að hafa fengið Árna Vilhjálmsson í framlínuna fyrir leikinn í kvöld?

„Jú, það var gott að fá Árna sem þekkir okkar leikstíl og hann var öflugur í kvöld. Hann var aggressífur og kom með nýja vinkla á ýmislegt sem við höfum verið að gera og stóð sig mjög vel. Hann er góður liðsmaður, leggur upp mörk og ógnar, og við fögnum komu hans.

Nú þurfum við bara að halda áfram, við lifum ekkert á einum leik og nú verðum við að skila okkar í næstu leikjum.“

Þið eruð bara þremur stigum frá toppnum þegar mótið er hálfnað – þetta er allt galopið fyrir ykkur, ekki satt?

„Jú, við erum á þeim stað þar sem við viljum vera, nálægt toppnum, og þar ætlum við að enda. Nú verðum við að halda áfram að safna stigum, við megum ekki misstíga okkur mikið því FH mun ekki gera mikið af því. Svo eru fleiri öflug lið eins og Fjölnir þarna um hituna. Helmingurinn er eftir og við erum þokkalega sáttir. En það þýðir ekki að horfa mikið um öxl, við horfum til næsta leiks og sjáum hvað það gefur.“

Þú varðir vítaspyrnu frá Þóri Guðjónssyni og það kom heldur betur á réttum tímapunkti fyrir ykkur.

„Já, ég er búinn að vera með ákveðna reglu í vítaspyrnu í hundrað ár og fór eftir henni. Stundum gengur hún upp og stundum ekki, og í kvöld virkaði það. Þórir er góður spyrnumaður og ég er feikilega ánægður með að hafa varið frá honum. Skotið var fast og þetta víti hefði þótt frábært ef ég hefði farið í hitt hornið.

Það var mjög gaman að geta hjálpað liðinu í þessari stöðu því þarna hefðu Fjölnismenn getað komist inn í leikinn. Seinni hálfleikur var nýbyrjaður, þeir hefðu minnkað muninn í 2:1 og komnir með blóð á tennurnar og þá hefði þetta verið erfiðara en ella. Það var gott að geta lagt sitt af mörkum til að ná þessum þremur stigum,“ sagði Gunnleifur Gunnleifsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert