„Dómarinn gaf þeim þetta“

Tómas Þorsteinsson úr Fylki og Ævar Ingi Jóhannesson úr Stjörnunni …
Tómas Þorsteinsson úr Fylki og Ævar Ingi Jóhannesson úr Stjörnunni eigast við og fyrir aftan þá er Ólafur Íshólm Ólafsson markvörður Fylkis við öllu búinn. mbl.is/Árni Sæberg

„Það grátlegasta við þetta var að það var dómarinn sem eyðilagði þetta,“ sagði Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis, eftir 2:1-tap Fylkis gegn Stjörnunni í Pepsi-deild karla í kvöld.

Mörk Stjörnunnar komu á 88. og 90. mínútu leiksins en Hermann, og aðrir Fylkismenn, voru afar ósáttir við dómgæsluna í fyrra markinu sem var úr aukaspyrnu af um 20 metra færi. „Þetta er mjög, mjög ódýr aukaspyrna. Það eru góðir spyrnumenn í dag og þetta var gjöf sem við megum ekki alveg við. Ég er fúll með dómarann, hann gaf þeim þetta. Við vorum með leikinn í vasanum,“ bætti Hermann við.

„Það skiptir engu máli hvað við gerum. Það er bara dómarinn sem gefur þetta. Ég er gríðarlega ánægður með strákana. Þeir héldu skipulagi og unnu vel. Við sóttum hratt og vel á þá,“ sagði Hermann.

Hermann átti erfitt með að líta á björtu hliðarnar þegar hann var spurður hvort frammistaðan væri ekki eitthvað til að byggja á í næstu leikjum. „Það er þreytt að hugsa alltaf um þetta. Við höfum átt fullt af góðum frammistöðum, en ég næ þessu bara ekki.“

Hann sagði tilfinninguna eftir að Stjarnan skoraði sigurmarkið hafa verið afskaplega slæma. „Mér er búið að vera óglatt eftir nokkra leiki og mér er óglatt aftur.“

Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis.
Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkis. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert