Svipað mark og Garðar skoraði

Þórarinn Ingi Valdimarsson og Hallur Hallsson í leiknum í kvöld.
Þórarinn Ingi Valdimarsson og Hallur Hallsson í leiknum í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er orðið mjög langt síðan ég skoraði með hægri og það gerist meira að segja afar sjaldan á æfingum. Það var gott að landa öruggum og nokkuð þægilegum sigri eftir vonbrigðin í Evrópukeppninni á miðvikudaginn var,“ sagði Þórarinn Ingi Valdimarsson sem kom FH á bragðið þegar liðið lagði Þrótt að velli, 2:0, í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld. 

„Ég smurði boltanum upp í vinkilinn með firnaföstu skoti og þetta var ekki ósvipað því sem Garðar [Bergmann Gunnlaugsson, leikmaður ÍA] gerði fyrr í dag. Hægri fóturinn á mér er vel geymt leyndarmál sem ég nota bara spari eins og í þessum leik,“ sagði Þórarinn Ingi léttur þegar hann er beðinn um að lýsa markinu sem hann skoraði.

„Það var þungt yfir okkur í kjölfar leiksins við Dundalk, en við fórum rækilega yfir málin á fundi daginn eftir. Við minntum sjálfa okkur á að við erum efstir í deildinni og komnir í undanúrslit í bikar þannig að það var alger óþarfi að fara í eitthvert volæði. Það er sterkt að byrja seinni umferðina eins vel og við gerðum og nú er bara að halda áfram að safna stigum,“ sagði Þórarinn Ingi um framhaldið hjá FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert