„Svona menn eiga ekki að vera lausir“

Arnór Snær Guðmundsson (ÍA) og Bjarni Gunnarsson (ÍBV) í baráttu …
Arnór Snær Guðmundsson (ÍA) og Bjarni Gunnarsson (ÍBV) í baráttu um boltann í fyrri viðureign liðanna. Eggert Jóhannesson

„Maður er svekktur. Við fórum ágætlega inn í leikinn og fáum á okkur þetta glæsilega mark. Það verður ekki tekið af Garðari en svona menn eiga ekki að vera lausir þarna fyrir utan teig. Síðan skora þeir úr föstu leikatriði og þeir hafa verið iðnir við það. Eftir það fannst mér við ranka aðeins við okkur og seinni hálfleikur var bara einstefna,“ sagði Bjarni Jóhannsson, þjálfari ÍBV, í samtali við mbl.is eftir 2:0 tap gegn ÍA í 12. umferð Pepsi-deildar karla á Akranesvelli í kvöld. 

ÍBV hefur ekki unnið deildarleik síðan 4. júní. 

„Við höfum verið að spila á móti sterkari liðunum upp á síðkastið og mætum svo Skaganum í því formi sem þeir eru.“

Eyjamenn hafa oft spilað betri sóknarbolta og náðu ekki að nýta sér að vera einum manni fleiri í um 18 mínútur.

„Þegar við vorum komnir með yfirhöndina í síðari hálfleik þá vorum við að gefa sendingar af löngu færi inn í teig og náðum ágætlega að opna þá en við vorum óklókir á síðustu sendinguna fyrir mann. Síðan voru lítil atriði í dómgæslunni sem féllu alls ekki okkar megin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert