Vorum ekki nógu hugrakkir

Steven Lennon og Hallur Hallsson í leiknum í kvöld
Steven Lennon og Hallur Hallsson í leiknum í kvöld mbl.is/Árni Sæberg

„Það hefur gengið brösuglega að skora í síðustu leikjum og það varð engin breyting á því að þessu sinni. Ég er viss um að það mun kvikna á framherjum okkar í næstu leikjum og það er enn trú í leikmannahópnum þrátt fyrir að við séum augljóslega í slæmri stöðu,“ sagði Gregg Oliver Ryder, þjálfari Þróttar, í samtali við mbl.is eftir 2:0 tap liðsins gegn FH í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í Kaplakrika í kvöld. 

„Við vorum ekki nógu hugrakkir þegar við unnum boltann og fjórir fremstu leikmenn liðsins komust ekki í takt við leikinn. Mér fannst varnarskipulagið halda að mestu leyti, en það gefur okkur ekkert ef við náum ekki að skapa færi á hinum enda vallarins,“ sagði Gregg um spilamennsku Þróttar. 

„Við höfum gengið í gegnum nokkrar breytingar á leikmannahópnum og mér fannst nýju leikmennirnir koma vel inn í liðið. Það er góð holning á liðinu, en við verðum að fara að safna stigum ef ekki á illa að fara. Ég er ekki viss um hvort við bætum við okkur fleiri leikmönnum, en það er ekki útilokað og við munum skoða það á næstu dögum,“ sagði Gregg um framhaldið í Laugardalnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert