Gary Martin til Lilleström

Gary Martin á fullri ferð í leiknum gegn KR í …
Gary Martin á fullri ferð í leiknum gegn KR í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Englendingurinn Gary Martin, leikmaður Víkings úr Reykjavík, er á leið til norska úrvalsdeildarfélagsins Lilleström en þar mun framherjinn skoða aðstæður hjá félaginu.

Lítist Martin á það sem norska félagið hefur upp á að bjóða og sömuleiðis ef forráðamönnum Lilleström líst vel á kappann, er ljóst að hann mun skipta yfir til Noregs fljótlega. Rúnar Kristinsson er þjálfari Lilleström og þekkir býsna vel til Martins.

Milos Milojevic, þjálfari Víkings, staðfesti þetta í samtali eftir sigurleik Víkinga gegn KR í kvöld.

„Ég get sagt ykkur það að hann er að fara og skoða aðstæður og þeir [Lilleström] vilja skoða hann. Þeir vilja sjá hvort hann hafi nokkuð gleymt hvernig á að spila fótbolta.“

„Ef honum líst vel á þetta, þá erum við að missa góðan leikmann. Ég er samt mjög ánægður að mínir menn eru eftirsóttir. Víkingur hefur markaðssett marga leikmenn mjög vel síðustu ár og þetta er líka auglýsing fyrir okkur. Ef þetta er rétt skref fyrir hann og hans feril, þá er ég mjög ánægður fyrir hans hönd.“

„Ég er gríðarlega sáttur að allur hans fókus var á leikinn í dag. Hann var mjög duglegur í dag og gerði KR-ingum lífið erfitt,“ sagði Milos að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert