Förum glöð inn í þjóðhátíð

Ian Jeffs var ánægður með spilamennsku ÍBV í kvöld.
Ian Jeffs var ánægður með spilamennsku ÍBV í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Ian Jeffs, þjálfari ÍBV, var ánægður eftir 5:3-sigurinn á Selfossi í Pepsi-deild kvenna í kvöld, en viðurkenndi að leikurinn hefði verið erfiður. ÍBV spilaði 120 mínútur í bikarkeppninni á Akureyri á laugardaginn og sá leikur sat greinilega í liðinu þegar leið á leikinn í kvöld. Sem betur fer fyrir Eyjakonur náðu þær að ganga frá leiknum í fyrri hálfleik.

„Já, þetta var erfitt. Við vorum skiljanlega bensínlausar í seinni hálfleik eftir erfiðan leik á laugardaginn. Við reyndum að gera okkur erfitt fyrir með því að fá á okkur tvö klaufaleg mörk í seinni hálfleik en mér fannst við sýna góðan karakter að klára þetta. Þetta voru sannfærandi úrslit,“ sagði Jeffs í samtali við mbl.is eftir leik.

Staðan var 4:1 ÍBV í hag í hálfleik en Selfoss minnkaði muninn í 3:5 eftir sjö mínútur af seinni hálfleik, þar sem bæði lið skoruðu á fyrstu 90 sekúndum hálfleiksins.

„Þetta er örugglega eitthvert met, þessi fyrstu tvö mörk í seinni hálfleik. En við vorum betri í fyrri hálfleik og það var það sem við lögðum upp með. Við vildum byrja af krafti því ég vissi að liðið yrði þreytt í seinni hálfleik. Það er mjög erfitt að koma hingað á Selfoss þannig að ég er mjög ánægður,“ sagði Jeffs, sem fer glaður með sitt lið inn í verslunarmannahelgina.

„Við förum alltaf glöð inn í þjóðhátíð, en kannski enn frekar núna. Við vorum búin að setja okkur það markmið að fá lágmark sex stig úr síðustu þremur deildarleikjum og komast í úrslitin í bikarnum og það tókst. Ég er mjög ánægður með það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert