Jón Guðni frá í einn til tvo mánuði

Jón Guðni Fjóluson í búningi Norrköping.
Jón Guðni Fjóluson í búningi Norrköping. Ljósmynd/ifknorrkoping.se

Jón Guðni Fjóluson, sem leikur á sínu fyrsta tímabili með meistaraliðinu Norrköping í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu karla, verður frá keppni í fjórar til átta vikur vegna kinnbeinsbrots sem hann varð fyrir á æfingu liðsins. Þetta kemur fram á twittersíðu Norrköping í dag. 

Ástæða þess að svo teygjanlegur tími er nefndur á fjarveru Jóns Guðna er að kinnbeinið verður að gróa að fullu áður en hann hefur æfingar og keppni aftur. Óljóst er hversu langan tíma tekur fyrir beinið að gróa.

Mikil hætta er á að beinið brotni á nýjan leik fái hann högg á brotsvæðið ef beinið fær ekki nægan tíma til þess að gróa og ekki verður teflt í tvísýnu með að það gerist hjá Jóni Guðna.   

Norrköping, sem er ríkjandi sænskur meistari, er í harðri baráttu við Kára Árnason, Viðar Örn Kjartansson og félaga þeirra í Malmö um titilinn í ár. Malmö trónir á toppi deildarinnar með 32 stig eftir 15 umferðir og Norrköping er stigi á eftir Malmö í öðru sæti.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert