Það er nóg eftir af mótinu

Margrét Lára Viðarsdóttir hefur fagnað ófáum mörkum á gææstum ferli.
Margrét Lára Viðarsdóttir hefur fagnað ófáum mörkum á gææstum ferli. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Við byrjuðum þennan leik mjög vel og vorum mjög góðar í fyrri hálfleik. Svo vissum við alveg að Fylkisliðið kæmi snælduvitlaust út í seinni hálfleikinn. Það er erfitt að brjóta þær niður og þannig á það líka að vera í þessari deild. Þetta er jöfn og sterk deild og maður þarf að hafa fyrir þessu,“ sagði markahrókurinn Margrét Lára Viðarsdóttir eftir sigurleik Vals gegn Fylki í Pepsi-deild kvenna. Valur vann leikinn 3:0 og Margét Lára skoraði tvö mörk.

Valur, Breiðablik og Stjarnan virðast vera að skilja sig örlítið frá öðrum liðum í Pepsi-deild kvenna. Margrét Lára er kannski örlítið sammála að þessi lið séu að bítast um titilinn en eyðir þó ekki of mikilli orku í slíkar pælingar.

„Ég lít bara á þetta þannig að við förum bara í einn leik í einu og einbeitum okkur að því að vinna hvern leik. Við vitum vel hverju það getur skilað okkur í lokin. Við höldum bara áfram að safna stigum og það er það sem skiptir máli í þessu.“

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Slæm byrjun Vals í deildinni gæti reynst liðinu dýrkeypt þegar upp er staðið. Lítur Margrét til baka og grætur töpuð stig í leikjum sem flestir áttu von á að Valur myndi vinna örugglega?

„Já og nei. Auðvitað horfir maður á stigin en við erum bara lið sem er að bæta sig. Þessir leikir þarna í byrjun voru bara nauðsynlegir fyrir okkur til að sjá hvaða göt við þurftum að fylla upp í og við fengum undirbúningstímabil þar sem við nánast mættum ekki liði sem spilar í efstu deild. Mótspyrnan var því ekki mikil í þeim leikjum og við vissum kannski ekki um okkar veikleika. Þessir fyrstu leikir fóru því í að finna veikleikana og bæta úr þeim. Það er nóg eftir af mótinu ennþá.“

Blaðamaður getur ekki stillt sig um að minnast á þau reginmistök að selja Margréti úr liði sínu í hinni vinsælu Draumaliðsdeild og Margrét Lára tekur undir að það hafi verið mistök.

„Já, fólk verður bara að treysta þeim leikmönnum sem valdir eru í byrjun, er það ekki? Þú skiptir ekki um lið í enska boltanum og þetta er það sama,“ sagði Margrét létt að lokum.

mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert