„Vitum að við höfum engu að tapa“

Andrew James Pew í leik með Selfyssingum.
Andrew James Pew í leik með Selfyssingum. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Við höfum trú á því að við getum komist í úrslitaleikinn og erum mjög spenntir fyrir leiknum á morgun (í dag),“ segir Andrew James Pew, reyndasti leikmaður knattspyrnuliðs Selfyssinga.

Selfoss er komið í undanúrslit Borgunarbikars karla. Þetta er í annað sinn í sögunni sem Selfoss komst svo langt í bikarkeppninni. Það gerðist síðast árið 1969 en Selfoss laut þá í lægra haldi fyrir liði Akureyringa, ÍBA.

„Stemningin er mjög góð og hefur verið það síðan Gunni (Gunnar Rafn Borgþórsson) tók við stjórn. Það hafa verið margar breytingar og hann er að ná því besta úr leikmönnum en það hefur enginn þjálfari náð að gera síðustu tímabil. Liðsandinn og andrúmsloftið er frábært. Við höfum trú á verkefninu og höfum náð lengra heldur en fólk spáði fyrir í byrjun tímabilsins. Okkur var spáð tíunda sæti í deildinni en erum nú í sjötta sæti og okkur líður eins og við gætum verið ofar.“

Andlegi þátturinn í lagi

Það vakti athygli þegar Selfoss sló KR út úr bikarnum síðla í maí. KR komst yfir í seinni hálfleik en Selfyssingar komu sterkir til baka, jöfnuðu í venjulegum leiktíma og skoruð síðan sigurmarkið í framlengingu. Andrew segir að árangurinn megi rekja til hugarfarsins.

„Það er andlegi þátturinn. Við höfum ekki haft næga trú á síðustu árum. Síðan kemur Gunni inn og eflir hana með góðri einstaklingsþjálfun. Allt í kringum liðið hefur batnað 100% frá síðustu tímabilum.“

Eftir KR-leikinn mætti Selfoss Víði frá Garði. Eftir venjulegan leiktíma var staðan 3:3 og Andrew skoraði sigurmarkið í framlengingu. Í 8-liða úrslitunum í byrjun júlí sóttu þeir Frammara heim á Laugardalsvöll og unnu öruggan 2:0 sigur.

„Við vorum fullir sjálfsöryggis gegn Fram. Ég get ekki sagt að menn hafi verið algjörlega lausir við efasemdir en við komum sjálfsöruggir inn í leikinn, staðráðnir í því að komast í undanúrslitin. Eftir sigurinn þá tók við mikil spenna vegna þess að við áttuðum okkur á því að við værum bara einu skrefi frá úrslitaleiknum. Gunni hefur haldið okkur á jörðinni og beint einbeitingu okkar að deildinni og kannski er það ástæðan fyrir því að okkur hefur gengið svona vel. En nú er tíminn til að vera spenntur og við hlökkum mikið til viðureignarinnar.“

Valur með meiri gæði

Í undanúrslitunum í kvöld tekur Selfoss við liði Vals á heimavelli sínum. Valsarar unnu stórsigur gegn Fylki í 8-liða úrslitunum, lokatölur 5:0. Að sögn Andrews eru Selfyssingar meðvitaðir um umfang verkefnisins.

„Við vitum að við erum lítilmagninn í undanúrslitunum en líka að við höfum engu að tapa. Fyrir okkur er þetta úrslitaleikur þannig að við munum setja allan okkar kraft í þennan leik. Vissulega hefur Valur meiri gæði í leikmannahópnum en við erum ekki hræddir við þá og munum berjast fram að leikslokum til að komast í úrslitaleikinn,“ sagði Andrew sem er 36 ára Englendingur og lék fyrst með Selfossi árið 2006.

Sigurvegarinn í kvöld mætir annað hvort ÍBV eða FH í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli þann 13. ágúst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert