Minn besti leikur í Valstreyju

Sigurður Egill Lárusson (fyrir miðju) átti frábæran leik.
Sigurður Egill Lárusson (fyrir miðju) átti frábæran leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigurður Egill Lárusson átti frábæran leik með Val í 7:0 stórsigri gegn Víkingum í lokaleik 15. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu. Sigurður Egill skoraði tvö mörk og lagði upp önnur tvö.

„Þetta var bara frábær leikur hjá okkur frá fyrstu mínútu og við bara völtum yfir þá. Það var bara svoleiðis,“ sagði glaðbeittur Sigurður Egill eftir leik.

Sigurður er uppalinn í Víkingi og viðurkenndi að tilfinningin að niðurlægja sína gömlu félaga hefði verið örlítið súrsæt.

„Að þetta þurfti að vera Víkingur, það er svolítið súrt en svona er þetta. ef við ætlum að blanda okkur í baráttuna um efstu sætin, þá þurfum við að vinna Víking.“

Sigurður gaf lítið fyrir hina frægu „bikarþynnku“, sem oft hrjáir bikarmeistara í næsta leik eftir úrslitaleikinn.

„Bikarsigurinn gaf okkur bara aukið sjálfstraust eins og sást í dag. Við hefðum hæglega getað unnið stærra en 7:0. Ég verð að viðurkenna að seinna markið mitt var fyrirgjöf en þegar sjálfstraustið er í botni, þá gengur ýmislegt upp.“

Þetta var örugglega minn besti leikur í sumar og bara í Valstreyjunni. Þegar við erum að finna okkur, þá eru fá lið sem eiga „break“ í okkur. Við höfum bara fengið á okkur of mörg mörk í sumar en nú erum við búnir að loka á það og erum bara ansi öflugir á okkar degi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert