Valur niðurlægði Víking

Kristinn Freyr Sigurðsson og Alex Freyr Hilmarsson fyrir aftan í …
Kristinn Freyr Sigurðsson og Alex Freyr Hilmarsson fyrir aftan í viðureign liðanna í kvöld. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Víkingur missti af gullnu tækifæri að koma sér í baráttu um Evrópusæti í Pepsi-deild karla í knattspyrnu þegar liðið gjörtapaði fyrir frábærum Valsmönnum 7:0 á Hlíðarenda. Valsmenn hoppuðu upp fyrir Víking í sjöunda sæti með þessum frábæra sigri og eru nú með 22 stig að loknum 15 umferðum. Víkingar eru í áttunda sæti með 21 stig.

Það er stundum talað um „bikarþynnku“, strax fyrsta leik eftir bikarmeistaratitil en Valsmenn þjáðust hreint ekkert af slíkum kvillum í fyrri hálfleik. Þeir byrjuðu af krafti og voru miklu betri aðilinn allan leikinn.

Kristinn Freyr Sigurðsson hefur verið góður með Val í sumar og hann kom sínum mönnum yfir á 19. Mínútu. Kristinn fékk þá sendingu frá Andra Adolphssyni rétt utan teigs og smellti boltanum í nærhornið framhjá Róberti, markverði Víkinga.

Víkingar virtust slegnir og aðeins 10 mínútum síðar skoraði Kristinn aftur. Varnarmenn Víkinga náðu ekki að hreinsa boltann frá hættusvæðinu og gáfu þess í stað beint á Kristinn. Miðjumaðurinn þakkaði pent fyrir sig, spólaði framhjá tveimur varnarmönnum eins og að drekka vatn og skoraði með hnitmiðuðu skoti.

Besta færi Víkinga í fyrri hálfleik kom eftir góðan samleik en Óttar Magnús Karlsson skaut beint á Anton Ara í marki Vals. Norska United-goðsögnin, Ole Gunnar Solskjær var í Valsstúkunni í kvöld og flestir voru þeirrar skoðunar að Norðmaðurinn væri að skoða Óttar Magnús. Það verður þó að segjast að Ole Gunnar hefði betur mætt á síðasta leik Víkinga, þegar Óttar skoraði þrennu.

Staðan í hálfleik var 2:0 fyrir Val og það voru afskaplega sanngjarnar tölur.

Hafi menn haldið að gestirnir myndu stoppa í götin í seinni hálfleik, þá var það langt fjarri sannleikanum. Valsmenn gjörsamlega kafsigldu Víkinga og skoruðu mörk í öllum regnbogans litum sem of langt mál er að útlista hér.

Lokatölur urðu 7:0 og það er langt síðan undirritaður hefur séð aðra eins yfirburði í einum fótboltaleik. Valsmenn eiga mjög stórt hrós skilið fyrir sína frammistöðu en heimamenn voru frábærir.

Víkingar eiga að sama skapi að kafa djúpt í sálartetrið og leita lausna. Þetta var einfaldlega ekki boðlegt.

Valur 7:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Guðjón Pétur Lýðsson (Valur) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert