Jafntefli í Ólafsvík

Víkingar fagna í kvöld.
Víkingar fagna í kvöld. mbl.is/Alfons

Víkingur Ólafsvík og Fjölnir gerðu 2:2 jafntefli þegar liðin mættust í 16. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Ólafsvíkurvelli í kvöld. Víkingur Ólafsvík er í níunda sæti deildarinnar með 19 stig eftir þennan leik á meðan Fjölnir er í öðru sæti með 27 stig.  

Kenan Turudija kom Víkingi Ólafsvík yfir á sjöundu mínútu leiksins þegar hann skallaði hárnákvæma fyrirgjöf Hrvoje Tokic í mark Fjölnis af stuttu færi. Tokic lék laglega á varnarmanna Fjölnis inni í vítateig og fann höfuðið á Turudija sem brást ekki bogalistinn.

Síðustu átta mínútur fyrri hálfleiks voru síðan ansi viðburðarmiklar. Marcus Solberg jafnaði metin fyrir Fjölni á 37. mínútu leiksins. Solberg nýtti sér þá sofandahátt í vörn Víkings Ólafsvíkur, en danski framherjinn var skyndilega ein á auðum sjó eftir langa sendingu úr vörn Fjölnis og hann renndi boltanum milli fóta Cristians Martinez, markvarðar Víkings Ólafsvíkur.

Þorsteinn Már Ragnarsson kom svo Víkingi Ólafsvík yfir á nýjan leik á 41.  mínútu leiksins. Þorsteinn Már slapp þá í gengum vörn Fjölnis eftir langa sendingu frá Alfreð Má Hjaltalín. Sending Alfreðs hefði átt að vera auðveld viðureignar fyrir Hans Viktor Guðmundsson, en hann mislas boltann og boltinn hrökk til Þorsteins Más sem skoraði af miklu öryggi.

Emir Dokara, leikmanni Víkings Ólafsvíkur, var síðan vísað af velli með rauðu spjaldi á 44. mínútu leiksins fyrir háskaleik. Dokara fór þá með með sólann of hátt í loft og sparkaði í höfuð Martins Lund Pedersen, leikmanns Fjölnis. Rauða spjaldið var réttlætanlegur dómur, en Ejub Purisevic var ekki sammála því og lét Þorvald Árnason, dómara leiksins, heyra það á leið þeirra inni í búningsherbergin í hálfleik.

Víkingur Ólafsvík lá til baka í síðari hálfleik og freistaði þessi að halda forystu sinni. Þorsteinn Már Ragnarsson slapp síðan í gegn um vörn Fjölnis eftir góðan undirbúning frá Hrvoje Tokic og Þorsteinn Már var hársbreidd frá því að skora þriðja mark Víkings Ólafsvíkur. Sókn Fjölnis þyngdist hins vegar eftir því sem leið á seinni hálfleikinn.

Þung sókn Fjölnis í síðari hálfleik bar árangur þegar Marcus Solberg skoraði annað mark sitt í leiknum og jafnaði metin. Solberg fékk þá fasta fyrirgjöf úr aukaspyrnu frá Þóri Guðjónssyni og skallaði boltann í netið af stuttu færi. Fjölnir sótti nokkuð stíft það sem eftir lifði leiks, en leikmenn Víkings Ólafsvíkur börðust hetjulega og niðurstaðan jafntefli. 

Víkingur Ó. 2:2 Fjölnir opna loka
90. mín. Tobias Salquist skallar boltann í netið á marki Víkings Ólafsvíkur eftir sendnigu frá Viðari Ara Jónssyni. Tobias er dæmdur rangstæður og markið gildir því ekki.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert