Þetta eru tvö töpuð stig

Marcus Solberg jafnar hér metin fyrir Fjölni í leik liðsins …
Marcus Solberg jafnar hér metin fyrir Fjölni í leik liðsins gegn Víkingi Ólafsvík í kvöld. Ljósmynd/Alfons Finnsson

„Við hefðum að sjálfsögðu viljað fara með þrjú stig aftur í Grafarvoginn. Við vorum hins vegar lakari aðilinn fyrsta hálftímann í leiknum og leikmenn Víkings Ólafsvíkur voru töluvert betri á þeim kafla. Við hefðum hins vegar viljað nýta liðsmuninn betur í síðari hálfleik,“ sagði Ágúst Þór Gylfason, þjálfari Fjölnis, í samtali við mbl.is eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn Víkingi Ólafsvík í 16. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Ólafsvík í kvöld.

„Við náum að koma okkur betur inn í leikinn eftir erfiða byrjun og jöfnum metin. Við gefum þeim hins vegar mark skömmu síðar og hefðum átt að gera betur í aðdraganda seinna marksins hjá þeim. Eftir að þeir verða einum leikmanni færri þá stjórnum við leiknum og hefðum átt að klára leikinn og tryggja okkur þrjú stig,“ sagði Ágúst Þór um þróun leiksins. 

„Það var erfitt að brjóta þéttan varnarmúr þeirra á bak aftur í seinni hálfleik. Við náðum að skora eitt mark og náðum allavega stigi sem er betri en ekki neitt. Við förum hins vegar fúlir heim og hefðum viljað gera betur. Nú er bara framundan erfiður leikur við Fylki sem er að berjast fyrir því að halda sér í deildinni. Við þurfum að mæta klárir í þann leik og reyna að halda okkur í toppbaráttunni með þremur stigum þar,“ sagði Ágúst Þór um spilamennsku Fjölnis og framhaldið hjá liðinu.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert