Fylkir nálgast fallið

Elís Rafn Björnsson og Ásgeir Eyþórsson, leikmenn Fylkis, freista þess …
Elís Rafn Björnsson og Ásgeir Eyþórsson, leikmenn Fylkis, freista þess að ná boltanum af Garðari Bergmann Gunnlaugssyni, leikmanni ÍA, í fyrri leik liðanna í deildinni í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Fylkir er í afar slæmum málum í 11. sæti Pepsi-deildar karla í knattspyrnu eftir 0:3 tap  gegn ÍA en liðin mættust  í Árbæ í 16. umferð. Skagamenn eru hins vegar í fimmta sæti í bullandi baráttu um sæti í Evrópukeppni að ári.

FYrri hálfleikurinn var eign gestanna. Fylkir náði engum takti og Skagamenn þurftu í sjálfu sér ekki að eiga neinn stórleik til að fara með tveggja marka forystu inn í búningsherbergi að loknum 45 mínútum.

Fyrsta markið skoraði Albert Hafsteinsson eftir sendingu Halls Flosasonar. Hallur sendi boltann frá hægri inn í teiginn, þar sem Sonni Ragnar Nattestad missti af honum og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Albert.

Annað markið skrifast á Ólaf Íshólm, markvörð Fylkis. Klaufalegt brot Ragnars Braga, rétt utan teigs kostaði Fylki aukaspyrnu, sem Darren Lough nýtti sér til fullnustu. Lough skaut föstu skoti með jörðinni í markmannshornið og boltinn endaði í netinu, þrátt fyrir að Ólafur hafi verið í honum.

Sanngjörn forysta Skagamanna að loknum fyrri hálfleik, 2:0.

Seinni hálfleikur var frekar bragðdaufur en sem fyrr voru það gestirnir sem ógnuðu meira. Eftir snarpa sókn upp hægra megin, sendi Hallur Flosason á markahrókinn Garðar B. Gunnlaugsson og Garðar skoraði sitt 13. mark í deildinni I sumar.

Tryggvi Hrafn Haraldsson var sprækur vinstra megin og hann fékk tvö góð færi en náði ekki að nýta þau. Leikurinn fjaraði út smátt og smátt og þrátt fyrir að heimamenn hafi örlítið hresst sig við á lokakaflanum, þá var sigri Skagamanna ekki ógnað.

ÍA gerði bara nákvæmlega það sem til þurfti í þessum leik. Varnarleikurinn var flottur og Skagamenn sóttu svo hratt þegar þurfti og það skilaði þremur mörkum. Nú er bara spurning hversu langt ÍA getur farið í sumar.

Fylkir átti lítið skilið í þessum leik. Það var eiginlega stórskrýtið að sjá leikmenn mæta í svona mikilvægan leik með jafn litla ástríðu. Fylkir er ekki fallið en Árbæingar fara beint niður með fleiri svona frammistöðum.

Fylkir 0:3 ÍA opna loka
90. mín. Hallur Flosason (ÍA) fær gult spjald Fyrir brot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert