Blikar völtuðu yfir búlgarska liðið

Blikar fagna marki gegn Val í deildinni í sumar.
Blikar fagna marki gegn Val í deildinni í sumar. Árni Sæberg

Íslands­meist­ar­ar Breiðabliks sigruðu búlgarska liðið NSA Sofia 5:0 í undan­keppni Meist­ara­deild­ar Evr­ópu á Cyncoed-leikvanginum í Car­diff í dag. 

Úrslitin gera það að verkum að Breiðablik getur tryggt sér sæti í 32 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu með sigri á Cardiff Met á sunnudaginn en efsta liðið í riðlinum kemst áfram. 

Þetta var annar leikur Breiðabliks í undankeppninni en fyrsti leikurinn gegn serbneska liðinu Spar­tak Su­botica fór 1:1. Á sunnudaginn spila Blikar við velska liðið Cardiff Met.

Blikar voru með heljarinnar yfirburði í leiknum. Samtals voru marktilraunirnar 19 í samanburði við aðeins tvær marktilraun búlgarska liðsins. 

Í byrjun áttu Blikar hins vegar erfitt með að finna skotskóna, hvert skotið á fætur öðru fór ýmist fram hjá eða í varnarmann. Á 34. mínútu braut bakvörðurinn Hallbera Guðný Gísladóttir ísinn og kom Blikum í 1:0. 

Þá brast stíflan og aðeins sex mínútum síðar skoraði Berglind Björg Þorvaldsdóttir annað mark Breiðabliks. Það var síðan Fanndís Friðriksdóttir sem kom Blikum í 3:0 á 43. mínútu, þrjú mörk á níu mínútum og þægilegt forskot í hálfleik. 

Seinni hálfleikur var með svipuðu móti, Blikar þjörmuðu að Búlgaríuliðinu. Fjórða markið skoraði varamaðurinn Esther Rós Arnarsdóttir á 76. og fimmta markið kom einnig frá varamanni, Selmu Sól Magnúsdóttir í uppbótartíma, lokatölur 5:0 fyrir Breiðablik. 

Byrjunarlið Breiðabliks:

Sonný Lára Þrá­ins­dótt­ir (m)
Svava Rós Guðmunds­dótt­ir
Arna Dís Arnþórs­dótt­ir
Mál­fríður Erna Sig­urðardótt­ir
Berg­lind Björg Þor­valds­dótt­ir
Hall­bera Guðný Gísla­dótt­ir
Kristín Dís Árnadóttir
Rakel Hönnu­dótt­ir
Hildur Antonsdóttir
Fann­dís Friðriks­dótt­ir
Ingi­björg Sig­urðardótt­ir

Bein textalýsing:

92. Leik lokið! Frábær sigur hjá Blikum sem eiga nú möguleika á 32 liða úrslitum

91. Maaark! Staðan er 5:0 fyrir Breiðablik Selma Sól Magnúsdóttir er komin á blað eftir stoðsendingu frá Berglindi.

88.  Gult spjald á Berglindi Björgu.

86. Radoyska með skottilraun fyrir Búlgaríuliðið eftir langa bið en Sonný í markinu ver. 

83. Önnur skottilraun frá Selmu en hún fer í varnarmann. Berglind á síðan skot sem markmaðurinn ver. Blikar eru allsráðandi í leiknum. 

83. Síðan kemur Fanndís með skot í varnarmann!

82. Selma Sól reynir að stimpla sig inn í leikinn. Hún á skot sem markmaðurinn ver. 

80. Síðasta skipting Blika: Selma Sól Magnúsdóttir kemur inn fyrir Rakel Hönnudóttur. 

76. Maaark! Staðan er 4:0 fyrir Breiðablik Esther Rós Arnarsdóttir er endanlega að gera út um leikinn! Sannarlega frábær innkoma hjá Esther sem kom af bekknum fyrir rúmum tíu mínútum. 

72. Tækifæri fyrir Chance til að auka forskotið enn frekar en hún hittir ekki á markið. 

69. Breiðablik fær aukaspyrnu á hættulegum stað. Fanndís tekur skotið en það fer fram hjá. 

64. Skipting hjá Breiðabliki: Esther Rós Arnarsdóttir kemur inn fyrir Hildi Antonsdóttur. 

58. Chance með sína fyrstu skottilraun en það fer af varnarmanni. 

53. Skipting hjá Breiðabliki: Hallbera fer af velli og Olivia Chance kemur inn á. 

52. Rakel reynir skotið en markmaðurinn ver í horn. Hallbera tekur hornið og úr því skapast færi þar sem Rakel skýtur í tréverkið! Frábært marktækifæri, þær ætla að bæta fleiri mörkum við. 

47. Blikar byrjar seinni hálfleikinn af krafti. Hildur reynir skot sem fer fram hjá. 

46. Seinni hálfleikur er hafinn!

45. Hálfleikur. Flautað til hálfleiks. Stelpurnar fara með þægilegt forskot inn í seinni hálfleikinn. 

43. Maaark! Staðan er 3:0 fyrir Breiðablik Þrjú mörk á níu mínútum. Fanndís eykur forskotið í 3:0 eftir stoðsendingu frá Hildi. Allt í einu small allt saman. 

40. MAAARK! Staðan er 2:0 fyrir Breiðablik Blikar svara kallinu. Berglind Björg kemur Blikum í 2:0!

38. Blikar komust líka yfir í síðasta leik eftir að hafa dómínerað leikinn en fengu á sig jöfnunarmark í lokin. Nú þarf að setja í fimmta gír og setja annað mark og jafnvel fleiri. 

34. Maaaark! Staðan er 1:0 fyrir Breiðablik Loksins kom það. Hallbera Guðný brýtur ísinn eftir stoðsendingu frá Fanndísi. 

32. Kristín Dís með enn eitt skotið sem missir marks. Blikar eru ráðandi í leiknum en virðast hafa gleymt skotskónum á hótelinu. 

27. Blikar fá aukaspyrnu í skotfæri sem Fanndís tekur. Hún reynir skotið en enn og aftur fer boltinn fram hjá. 

24. Og þá kom fyrsta skotið hjá andstæðingunum. Koshuleva með skot úr aukaspyrnu sem Sonný í markinu ver. 

23. Blikar eru komnir með fimm marktilraunir gegn núll hjá Búlgörunum en engin hefur hitt á mark enn þá.

17. Berglind og Fanndís báðar með skot að marki á sömu mínútu en hitta ekki á rammann. Boltinn hlýtur að fara að detta inn í markið bráðum. 

16. Rakel með marktilraun eftir hornspyrnu frá Hallberu en boltinn fer fram hjá. 

13. Fanndís reynir skotið en það fer í varnarmann. Þetta byrjar vel hjá Blikum. 

12. Berglind er aftur í færi en missir marks. 

10. Blikar fá frábært marktækifæri en Berglind hittir ekki á rammann. 

9. Skot Berglindar fer í varnarmann.

9. Hallbera tekur aukaspyrnuna.

1. Leikurinn er hafinn!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert