Hefur tekið mestum framförum í sumar

Dóra María með boltann í leik gegn Breiðabliki í sumar.
Dóra María með boltann í leik gegn Breiðabliki í sumar. mbl.is/Árni Sæberg

Dóra María Lárusdóttir átti mjög góðan leik þegar Valur sigraði FH, 4:0, í 13. umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu á miðvikudag í Kaplakrika. Valur er í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum á eftir Breiðabliki sem er í öðru sæti og sjö stigum á eftir toppliði Stjörnunnar.

Dóra María er sá leikmaður sem Morgunblaðið fjallar sérstaklega um eftir 13. umferðina. Þessi 31 árs miðvallarleikmaður lék sinn 201. leik í efstu deild og skoraði tvö marka Vals. Dóra er í 8. sæti yfir leikjahæstu konur í efstu deild en hún hefur auk þess leikið 108 A-landsleiki og skorað í þeim 18 mörk.

Hokin af reynslu

„Dóra María er þaulreyndur knattspyrnumaður. Hún er náttúrulega búin að spila lengi, á yfir 200 leiki í efstu deild og yfir 100 landsleiki, þannig að reynsla hennar er gríðarleg,“ sagði fyrirliði Vals, Margrét Lára Viðarsdóttir, þegar hún var beðin um álit sitt á miðvallarleikmanninum knáa.

Dóra var aðeins 16 ára þegar hún lék fyrst með Valsliðinu í efstu deild árið 2001, en þá gerði hún fjögur mörk í sex leikjum Hlíðarendaliðsins í deildinni og varð bikarmeistari með því. Samtals hefur hún orðið Íslandsmeistari sex sinnum og bikarmeistari fimm sinnum með Val ,en það er eina liðið sem Dóra hefur leikið með á Íslandi. Dóra lék með Djurgården í sænsku úrvalsdeildinni árið 2011 og Vitora í Brasilíu fyrstu mánuðina árið 2012 áður en hún sneri aftur í Val. Hún tók sér frí frá knattspyrnuiðkun á síðasta keppnistímabili en tók skóna af hillunni í vor og hefur leikið með Val í sumar.

Hún er frábær manneskja

„Hún er með ótrúlega mikla hæfileika sem knattspyrnumaður. Hún hefur yfirburðatækni og yfirsýn yfir völlinn og tekur mjög góðar ákvarðanir með boltann. Auk þess er hún með afar góðan leikskilning þannig að hún er svona leikmaður sem ég held að allir vilji hafa í sínu liði,“ sagði Margrét enn fremur um liðsfélaga sinn, en stöllurnar þekkjast vel:

„Við höfum þekkst frá því við vorum 14, 15 ára og byrjuðum að fara saman í ferðir með U17 ára landsliðinu.“

Nánar er fjallað um Dóru Maríu í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert