Hlutirnir koma í ljós á morgun hjá ÍBV

Ian Jeffs fagnar marki.
Ian Jeffs fagnar marki. mbl.is/Sigfús Gunnar

„Við spiluðum mjög vel í fyrri hálfleik og áttum að vera búnir að klára leikinn eftir tuttugu mínútur,“ sagði Ian Jeffs, sem stýrði liði ÍBV í 1:1 jafnteflinu gegn Þrótti í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag. ÍBV óð í færum í fyrri hálfleik en náði aðeins að setja eitt mark, sem reyndist dýrkeypt þegar Þróttur beit frá sér eftir hlé.

„Það er oft þannig að ef þú skorar ekki annað markið þá getur hitt liðið refsað í sínum færum. Þeir voru líklegri í seinni hálfleik, spiluðu betur en við. Það var eins og við værum pínu hræddir í seinni hálfleik, vorum að reyna að hanga á þessu eina marki í staðinn fyrir að gera það sem við vorum að gera vel í fyrri hálfleik; að sækja,“ sagði Jeffs.

ÍBV missti af gullnu tækifæri að koma sér nokkuð frá fallsvæðinu í leiknum og aðspurður hvort sjálfstraustið myndi skaðast eftir þetta sagði Jeffs:

„Þegar liðið er í svona botnbaráttu þá vantar sjálfstraust í menn. En fyrri hálfleikurinn var mjög góður og við höfum aldrei búið til svona mörg færi í einum leik í allt sumar. En það er ekki nóg, það þarf að klára þau líka. Við erum í fallbaráttu, í tíunda sæti og verðum að ná okkur í stig og halda okkur uppi. Svona er þetta bara.“

Jeffs hefur stýrt liðinu í síðustu tveimur leikjum ásamt Alfreð Jóhannssyni eftir brotthvarf Bjarna Jóhannssonar á dögunum. Munu þeir halda áfram með liðið?

„Ég veit það ekki, við sjáum til og það kemur betur í ljós á morgun. Það var sagt við okkur að við ættum að sjá um leikina tvo gegn Víkingi og Þrótti í dag. Svo myndum við tala saman um hvernig við leysum málið út tímabilið,“ sagði Ian Jeffs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert