Rauða spjaldið breytti leiknum

Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, var ekki ánægður með störf …
Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, var ekki ánægður með störf Guðmundar Ársæls Guðmundssonar, dómarara leiksins, í leik liðsins gegn Val í kvöld. mbl.is/Golli

„Mér fannst þessi leikur í jafnvægi þar sem bæði lið létu boltann ganga vel í gegnum miðsvæðið og sköpuðu fullt af góðum færum. Síðan erum við skyndilega orðnir einum leikmanni færri og ég skil ekki frekar en þú hvers vegna það var,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir 2:0 tap liðsins gegn Val í 17. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu i kvöld. 

Skúla Jóni Friðgeirssyni var vísað af velli með rauðu spjaldi um miðbik seinni hálfleiks og Willum Þór sagðist ekki hafa fengið útskýringu á seinni áminningu Skúla Jóns.

„Það var einhver rekistefna þarna og síðan fer rauða spjaldið á loft. Ég skil ekki hvers vegna og ég er ekki viss um að dómari leiksins [Guðmundur Ársæll Guðmundsson] viti það heldur. Þetta breytti leiknum og það er synd að við séum að ræða þetta eftir fjörugan og skemmtilegan fótboltaleik,“ sagði Willum Þór enn fremur um rauða spjaldið. 

KR er í áttunda sæti deildarinnar með 23 stig eftir þetta tap, fimm stigum frá liðunum sem eru í kringum þriðja sætið sem veitir þátttökurétti í Evrópukeppninni á næstu leiktíð. Willum Þór segir tapið mikil vonbrigði og það verði hins vegar að jafna sig í landsleikjahléinu. 

„Við ætluðum að gera okkur gildandi í baráttunni um Evrópusæti með sigri í þessum leik. Það tókst hins vegar ekki og við verðum að jafna okkur á þessu tapi og halda áfram. Við sleikjum sárin í kvöld og svo er bara áfram gakk. Það er enn þá möguleiki á að tryggja okkur sæti í Evrópukeppni og við stefnum enn að því að enda í þriðja sæti deildarinnar,“ sagði Willum Þór um framhaldið hjá KR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert