Keflavík síðasta lið í úrslitin

Lið Keflavíkur er komið í úrslitakeppnina og mætir Tindastóli.
Lið Keflavíkur er komið í úrslitakeppnina og mætir Tindastóli. Ljósmynd/Keflavik.is

Keflavík varð í kvöld áttunda og síðasta liðið til að tryggja sér sæti í úrslitakeppni 1. deildar kvenna í knattspyrnu, þar sem leikið verður um tvö sæti í úrvalsdeildinni á næsta ári.

Keflavík lagði Hauka að velli, 3:1, í Hafnarfirði og náði þar með þriðja sæti B-riðils, en í úrslitakeppnina fara þrjú lið úr A-riðli, þrjú úr B-riðli og tvö úr C-riðli. Hin 15 ára gamla Sveindís Jane Jónsdóttir skoraði öll þrjú mörk Keflvíkinga en hún hefur þar með skorað 18 mörk fyrir liðið í deildinni í sumar og fjögur að auki í bikarkeppninni.

Haukar voru þegar komnir í úrslit en Keflavík var einu stigi fyrir ofan Augnablik, sem á leik til góða annað kvöld. Nú liggur hins vegar fyrir að Grindavík með 37 stig, Haukar með 28 og Keflavík með 25 fara áfram en Augnablik og Fjölnir eru með 21 stig hvort og sitja eftir.

Úrslitakeppnin hefst næsta laugardag og þar mætast þessi lið:

Keflavík - Tindastóll
Víkingur Ó. - Grindavík
Haukar - HK/Víkingur
Hamararnir - ÍR

Leikið er heima og heiman og sigurliðin samanlagt fara í undanúrslit. Þar mætast lið úr þessum viðureignum í úrslitaleikjum um sætin tvö í úrvalsdeildinni:

ÍR eða Hamrarnir - Grindavík eða Víkingur Ó.
HK/Víkingur eða Haukar - Tindastóll eða Keflavík

Sindri hafnaði í 2. sæti C-riðils en missti af úrslitasæti þegar Völsungur mætti ekki til leik gegn Einherja um fyrri helgi. Þar með reiknuðust leikir Völsungs ekki inn í markatölu liða sem urðu jöfn í öðru til fjórða sæti, Sindra, Hamranna og Einherja, og við það fóru Hamrarnir uppfyrir Sindra og í annað sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert