Malmö búið að samþykkja tilboð í Viðar Örn

Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson. mbl.is/Eggert

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur sænska knattspyrnufélagið Malmö tekið tilboði frá ísraelska félaginu Maccabi Tel Aviv í landsliðsmanninn Viðar Örn Kjartansson.

Viðar Örn er þessa stundina að skoða aðstæður hjá ísraelska félaginu og svo getur farið að hann skrifi undir samning við það, en félagaskiptaglugganum verður lokað um mánaðamótin. Forráðamenn ísraelska félagsins eru mjög áfjáðir í að fá Selfyssinginn í sínar raðir og hafa í stöðugum viðræðum við umboðsmann Viðars síðustu mánuðina.

Maccabi Tel Aviv er reiðubúið að greiða á bilinu 450-500 milljónir króna fyrir Viðar Örn, sem hefur átt frábæru gengi að fagna með Malmö á leiktíðinni. Hann skoraði sigurmark liðsins gegn Sundsvall í gær og er markahæstur með 14 mörk.

Viðar Örn er í landsliðshópnum sem mætir Úkraínumönnum í Kiev eftir viku, en landsliðið kemur saman í Frankfurt í Þýskalandi á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert