Hún býður mér pítsu út tímabilið

Laufey Björnsdóttir (t.v.) kom Val til bjargar í blálokin í …
Laufey Björnsdóttir (t.v.) kom Val til bjargar í blálokin í kvöld með frábæru marki. mbl.is/Ófeigur

„Þetta var svo ógeðslega ljúft að ég vissi ekki hvað ég átti að gera. Þetta er bara besta tilfinning sem ég hef fundið,“ sagði Laufey Björnsdóttir, hetja Vals, um það þegar hún skoraði glæsilegt sigurmark gegn Stjörnunni í blálokin á toppslag liðanna í Pepsi-deildinni í knattspyrnu.

Laufey skoraði markið í viðburðaríkum uppbótartíma, eftir að staðan hafði verið 1:1, Pála Marie Einarsdóttir fengið að líta rauða spjaldið og Margrét Lára Viðarsdóttir klúðrað víti.

„Mér fannst við fá einhverja aukaorku og vilja til að klára dæmið, þegar Pála fékk rautt. Og við vildum það ennþá meira eftir að við klúðruðum vítinu,“ sagði Laufey, og viðurkenndi að fyrirliði sinn, Margrét Lára, hefði verið afar þakklát fyrir það að sigurmarkið skyldi koma þrátt fyrir að vítaspyrnan færi ekki á réttan stað:

„Hún ætlar að bjóða mér upp á pítsu það sem eftir er af tímabilinu,“ sagði Laufey og brosti, og bætti við að hún gæti ekki skilið orð Margrétar öðruvísi en svo að hún gæti átt von á pítsu á hverju kvöld ef hún kysi það.

Fannst þetta bara vera harka

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, sakaði Valskonur um grófan leik og fannst dómarinn engan veginn standa sig í stykkinu. Laufey sagði bæði lið hafa barist eins og ljón:

„Þetta var bara hörkuleikur. Við komum brjálaðar inn í leikinn, ætluðum að berjast eins og ljón, en þær voru líka að berjast eins og ljón. Þetta var auðvitað svolítið grófur leikur en mér fannst þetta bara vera harka.“

Forskot Stjörnunnar á Val á toppnum er nú komið niður í fjögur stig. Breiðablik er svo í 3. sæti, fimm stigum á eftir Stjörnunni og með leik til góða.

„Þetta breytir helling. Við nálgumst Stjörnuna í toppbaráttunni sem framundan er og þetta gefur okkur líka svolítið „extra búst“. Við reyndum að hugsa ekki um þetta sem einhvern úrslitaleik en auðvitað vissi maður af því innst inni,“ sagði Laufey.

„Mér fannst við betri í heildina. Stjarnan er með mjög gott lið sem erfitt er að spila á móti, en mér fannst við vera yfir í baráttunni. Við náðum líka að láta boltann ganga vel og vorum einhvern veginn svo yfirvegaðar,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert