Rauða spjaldið var réttur dómur

Rasmus Christiansen, leikmaður Vals, er hér vísað af velli með …
Rasmus Christiansen, leikmaður Vals, er hér vísað af velli með rauðu spjaldi í leik liðsins gegn Breiðabliki í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er ekki búinn að gleyma því hvernig það er að tapa. Tilfinningin er ekki góð og þetta var grautfúlt. Við fengum fullt af færum áður en þeir komust yfir og líka til að jafna metin. Það tókst hins vegar ekki og því fór sem fór. Mér fannst við síst lakari aðilinn í leiknum og úrslitin ekki endurspegla hvernig leikurinn spilaðist,“ sagði Ólafur Davíð Jóhannesson, þjálfari Vals, í samtali við mbl.is, eftir 3:0 tap liðsins gegn Breiðabliki 19. umferð Pepsi-deildarinnar í kvöld. 

Valur hafði leikið níu leiki án taps áður en kom að leiknum í kvöld og síðasti tapleikur kom um miðjan júlí gegn ÍA. Valsmenn léku einum leikmanni færri allan seinni hálfleikinn eftir að Rasmusi Christiansen, miðverði Vals, var vísað af velli með rauðu spjaldi fyrir að brjóta á Árna Vilhjálmssyni. Ólafur hafði ekkert úr á þann dóm að setja. 

„Þetta var að ég held bara réttur dómur og ég get ekkert fett fingur út í þessa ákvörðun. Við héldum áfram að sækja þrátt fyrir að vera einum leikmanni færri, enda ekkert í stöðunni en að reyna að jafna metin. Við vorum klaufar að nýta ekki færin okkar og þeir nýttu sér vel það pláss sem skapaðist þar sem við fórum framarlega á völlinn. Nú er bara að undirbúa sig vel undir erfiðan leik gegn FH,“ sagði Ólafur um rauða spjaldið, þróun leiksins og framhaldið hjá Val.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert