Augljós þreyta í landsliðsstelpunum okkar

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks.
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks. mbl.is/Eva Björk

Þorsteinn Halldórsson þjálfari Breiðabliks var að vonum ánægður með sigurinn á ÍA í 17. umferð Pepsi-deildar kvenna í dag.

Hann var þó ekkert sérstaklega sáttur með spilamennsku liðs síns og játti því að sigurinn hafi verið ansi torsóttur.

Við sköpuðum okkur fullt af færum á síðasta þriðjungi vallarins, þá sérstaklega í fyrri hálfleik. En það vantaði oft upp á síðustu sendinguna, til þess að ná að búa til dauðafæri. Í þeim færum sem við síðan fengum, þá var allt of mikið óðagot á okkur. Við höfðum oft meiri tíma en við héldum.” sagði Þorsteinn í samtali við mbl.is eftir leikinn.

Í byrjunarliði Breiðabliks voru fimm landsliðsstelpur og vildi Þorsteinn meina að ákveðin þreytumerki hefðu verið á leik nokkurra þeirra.

„Skiljanlega var smá þreyta í Hallberu, Fanndísi og Berglindi og það sást greinilega. Það er líka aðeins öðruvísi fyrir þær að fara úr því að spila fyrir 6.500 áhorfendur á þriðjudaginn og í 150 áhorfendur hér í dag. Það er eflaust erfitt að gíra sig upp í það.”

Fjolla Shala var borinn af velli á 69. mínútu og virtist sárkvalin. Fram að því, hafði Fjolla átt virkilega góðan leik og stöðvað fjölmargar sóknarlotur Skagastúlkna.

Fjolla fékk eitthvað í hnéð. Ég er hóflega bjartsýnn en vona bara það besta. Hún er náttúrulega mjög mikilvægur hlekkur í liðinu og hefur verið að spila mjög vel. Það yrði áfall fyrir okkur að missa hana í meiðsli, því það eru gríðarlega mikilvægir leikir framundan,” sagði Þorsteinn.

Breiðablik á mikilvæga leiki framundan gegn sænska meistaraliðinu Rosengård í Meistaradeild Evrópu, í byrjun október. Á föstudaginn hins vegar, fara Blikastelpur á Hlíðarenda, þar sem ekkert annað en sigur kemur til greina, ef Íslandsmeistaratitillinn á að enda í Kópavogi í ár.

Ég er bjartsýnn fyrir föstudaginn. Við verðum bara að klára okkur og vona svo það besta,” sagði Þorsteinn að lokum, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert