Leiknir F. bjargaði sér á ótrúlegan hátt

Kristófer Páll Viðarsson á ferðinni í Kórnum í dag, en …
Kristófer Páll Viðarsson á ferðinni í Kórnum í dag, en hann skoraði fjögur marka Leiknis F. gegn HK. mbl.is/Golli

Leiknir frá Fáskrúðsfirði heldur sæti sínu í Inkasso-deildinni í knattspyrnu eftir vægast sagt ótrúlegan 7:2 sigur á HK þegar liðin mættust í síðustu umferðinni í dag. Leiknir þurfti sjö marka sveiflu til að bjarga sér og tókst það þar sem Huginn tapaði 4:1 fyrir Selfossi og fellur á verri markatölu.

Staðan var 2:2 í hálfleik í Kórnum, en Austfirðingar skoruðu fimm mörk eftir hlé. Lokamínúturnar voru æsilegar, en þegar tvær mínútur voru eftir var staðan 5:2 fyrir Leikni. Kristófer Páll Viðarsson skoraði hins vegar tvívegis, á 88. og 90. mínútu, sitt þriðja og fjórða mark í leiknum, og Leiknis vann 7:2. Auk hans skoruðu Valdimar Ingi Jónsson, Kifah Mourad (16 ára) og Guðmundur Arnar Hjálmarsson fyrir HK en Hákon Ingi Jónsson gerði fyrra mark HK og það seinna var sjálfsmark.

Á meðan tapaði Huginn fyrir Selfossi, 4:1, og því fellur það í hlut Hugins að falla. Fögnuður Leiknismanna var gríðarlegur í Kórnum enda þurfti liðið eins og áður segir að vinna upp sjö marka sveiflu. Huginn fer því niður um deild eftir eins árs veru og fylgir Fjarðabyggð niður í 2. deildina. Seyðfirðingar voru í  vænlegri stöðu þegar Stefán Ómar Magnússon kom þeim yfir. Ingi Rafn Ingibergsson svaraði með tveimur mörkum fyrir Selfoss og James Mack bætti við tveimur í seinni hálfleik.

KA var þegar búið að tryggja sér sigur í deildinni og kláraði tímabilið með 3:0 sigri á grönnum sínum í Þór. Almarr Ormarsson, Juraj Grizelj og Bjarki Þór Viðarsson skoruðu mörkin.

Grindavík fylgir KA-mönnum upp um deild en Grindvíkingar gerðu markalaust jafntefli við Fram.

Fjarðabyggð kvaddi deildina með 1:2 tapi gegn Haukum í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði. Víkingur Pálmason kom Fjarðabyggð yfir en Elton Livramento jafnaði og Austfirðingar gerðu sjálfsmark skömmu fyrir leikslok.

Þá gerðu Leiknir R. og Keflavík markalaust jafntefli.

Lokastaðan í deildinni: KA 51, Grindavík 42, Keflavík 35, Þór 33, Haukar 31, Fram 30, Leiknir R. 29, Selfoss 28, HK 22, Leiknir F. 21, Huginn 21, Fjarðabyggð 17.

HK – Leiknir F. 2:7
Selfoss – Huginn 4:1
Leiknir R. – Keflavík 0:0
Fjarðabyggð – Haukar 1:2
Grindavík – Fram 0:0
Þór – KA 0:3

14.54 Leikjunum er lokið. Leiknir F. bjargar sér frá falli á hreint út sagt ótrúlegan hátt. Þeir fagna af innlifun.

14.52 Mark! Selfoss - Huginn 4:1. James Mack fellir lið Hugins endanlega. Ótrúleg þessi lokaumferð.

14.51 Mark! Fjarðabyggð - Haukar 1:2. Sjálfsmark tryggir Haukum sigur.

14.51 Rautt! Ágúst Hallsson í liði HK fær rautt. Ótrúlegar lokamínútur.

14.46. Mörk! HK - Leiknir F. 2:7. Ótrúlegir hlutir að gerast í Kórnum. Á 88. mínútu skoraði Kristófer Páll Viðarsson þriðja mark sitt og á 90. mínútu fékk Leiknir víti. Kristófer fór sjálfur á punktinn og skoraði sitt fjórða mark. Er Leiknir að bjarga sér á ótrúlegan hátt?

14.44 Mark! Þór - KA 0:3. KA-menn eru að klára tímabilið með stæl. Bjarki Þór Viðarsson skorar gegn Þórsurum.

14.36 Leiknir fær aftur tvö góð færi í sömu sókninni en HK-ingar bjarga naumlega. 78 mínútur liðnar af leiknum.

14.23 Mark! HK - Leiknir F. 2:5. Kristófer Páll Viðarsson með sitt annað mark. Skorar með stórglæsilegu skoti af 20 metra færi, efst í markvinkilinn. Leiknismenn ráða lögum og lofum á vellinum í Kórnum og freista þess að skora fleiri mörk. Þurfa tvö enn til að bjarga sér eins og staðan er núna.

14.14 Tvöfalt dauðafæri Leiknis en Andri í marki HK bjargar.

14.08 Mark! HK - Leiknir F. 2:4. Þremur mínútum eftir að hafa komist yfir skora Leiknismenn aftur. Guðmundur Arnar Hjálmarsson skorar af stuttu færi eftir langt innkast Hilmars Bjartþórssonar.

14.05 Mark! HK - Leiknir F. 2:3. Hinn 16 ára gamli Kifah Mourad skorar af stuttu færi eftir þunga sókn Leiknis og skothríð að marki HK. Hans fyrsta mark með meistaraflokki.

14.05 Mark! Selfoss – Huginn 3:1. Strax í upphafi síðari hálfleiks bætir Selfoss við marki. James Mack gerir það.

13.48 Hálfleikur. Stöðuna í leikjunum má sjá hér að ofan.

13.46 Mark! HK - Leiknir F. 2:2. Sjálfsmark eftir aukaspyrnu Ragnars Leóssonar.

13.45 Murcia í marki Leiknis ver vel hörkuskot Ragnars Leóssonar

13.40 Mark! HK - Leiknir F. 1:2. Valdimar Ingi Jónsson með ótrúlegu bogaskoti af 35 metra færi og kemur Leiknismönnum yfir á ný. Markið á 39. mínútu.

13.39 Kifah Mourad, 16 ára framherji Leiknis með hörkuskot rétt framhjá marki HK

13.39 Mark! Selfoss – Huginn 2:1. Selfyssingar komast yfir. Ingi Rafn Ingibergsson er þar aftur á ferðinni.

13.31 Mark! HK - Leiknir F. 1:1. Hákon Ingi Jónsson jafnar fyrir HK eftir laglega sendingu Ísaks Óla Helgasonar í gegnum vörn Leiknis. Hákon lék á markvörðinn og skoraði.

13.30 Murcia í marki Leiknis F. ver vel í tvígang í sömu sókn HK.

13.27 Mark! Selfoss – Huginn 1:1. Selfyssingar jafna metin. Ingi Rafn Ingibergsson er þar á ferðinni.

13.26 Mark! Fjarðabyggð – Haukar 1:1. Haukar jafna fyrir austan og það er Elton Livramento sem það gerir.

13.18 mark! HK – Leiknir F. 0:1. En þeir að austan halda í vonina. Kristófer Páll Viðarsson kemur þeim yfir á 18. mínútu með skoti af markteig eftir hornspyrnu.

13.17 Mark! Selfoss – Huginn 0:1. Gestirnir komast yfir á Selfossi og það er Stefán Ómar Magnússon sem skorar. Þeir eru endanlega að senda Leikni F. niður eins og staðan er núna.

13.16 Mark! Fjarðabyggð – Haukar 1:0. Fallnir Fjarðabyggðingar komast yfir gegn Haukum. Víkingur Pálmason skorar úr víti.

13.15 Andri markvörður HK ver vel hörkuskot frá Jesus Suárez.

13.12 Mark! Þór - KA 0:2. Það er aldeilis fjör í meisturunum. Juraj Grizelj tvöfaldar forskot þeirra á 11. mínútu.

13.11 Annað dauðafæri HK. Bjarni Gunnarsson einn gegn Murcia markverði Leiknis sem ver frá honum.

13.07 Ragnar Leósson klúðrar algjöru dauðafæri HK fyrir opnu marki Leiknis F.

13.04 Mark! Þór - KA 0:1. Grannaslagurinn byrjar af krafti. Almarr Ormarsson kemur þeim gulklæddu yfir strax á fjórðu mínútu.

13.01 Leikirnir eru að hefjast einn af öðrum.

12.45 Stundarfjórðungur þar til leikirnir hefjast. Mbl.is er í Kórnum á viðureign HK og Leiknis F. þar sem Austfirðingar halda í veika von um að halda sér uppi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert