„Takk fyrir KSÍ – hvað er að frétta?“

Edda Garðarsdóttir er þjálfari KR.
Edda Garðarsdóttir er þjálfari KR. mbl.is/Styrmir Kári

Það var þungt hljóðið í Eddu Garðarsdóttur, þjálfara KR, eftir 3:0 tap liðsins fyrir Stjörnunni í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag.

Sjá: Stjarnan er skrefi nær titlinum

Þetta er búið að vera þungt undanfarnar umferðir hjá okkur, sem er eitthvað sem maður vildi forðast. En ég held að stelpurnar mínar verði pottþétt klárar í síðasta leikinn. Er ekki alltaf gaman þegar mikið er undir,“ sagði Edda við mbl.is eftir leikinn.

Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Stjarnan þrjú mörk eftir hlé. KR fékk besta færi fyrri hálfleiks og Edda segir að það hafi verið vont að sjá það fara í súginn.

„Það sveið svolítið þegar við fengum færi ein á móti markmanni í fyrri hálfleik. Það hefði verið mjög gott að skora þá, það hefði breytt leiknum og sett meiri pressu á Garðbæinga. Það eru í sjálfu sér margir góðir punktar, varnarleikurinn var mjög fínn í fyrri hálfleik og úr miklu að vinna í sóknarleiknum. En við vorum bara ekki nógu klókar og gáfum færi á okkur við svipaðar aðstæður trekk í trekk,“ sagði Edda, sem var ekki nógu sátt með dómgæsluna í leiknum.

„Án þess að vilja segja svakalega mikið þá lét ég þá vita eftir leikinn að mér hafi ekki fundist þeir vera nógu góðir. Það má alveg.“

KR mætir föllnu liði ÍA á Skaganum í lokaumferðinni á föstudaginn kemur, klukkan 16, þar sem úrslitin ráðast í botnbaráttunni. KR er í fallsæti fyrir leikinn með 12 stig, jafn mörg og Selfoss og einu á eftir Fylki. Þau lið mætast einmitt í lokaumferðinni.

„Það er ekkert annað í stöðunni en að gefa allt í þann leik, og það á föstudegi klukkan fjögur. Takk fyrir það KSÍ – hvað er að frétta af því?“ spurði Edda Garðarsdóttir að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert