Ég var alveg rólegur

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Eggert

Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, tók undir það í samtali við mbl.is að sigur KR gegn Víkingi Ólafsvík fyrir vestan í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu hefði verið ansi torsóttur. KR-ingar fóru með 1:0 sigur af hólmi.

Sjá: Torsóttur sigur KR í Ólafsvík

„Já, og við bjuggum okkur undir það. Það eru mikil gæði í þessu Víkingsliði, það er vel þjálfað og skipulagt, erfitt viðureignar enda með líkamlega sterka menn. Við undirbjuggum okkur þannig fyrir þennan leik,“ sagði Willum við mbl.is. Hann var nokkuð sáttur við leikinn í heild sinni.

„Það er alltaf áskorun á þessum árstíma en mér fannst völlurinn jafnvel betri en ég átti von á. Inni á milli tókst liðunum bara mjög vel að spila fótbolta og mér fannst við ná góðu jafnvægi í það í dag; vera þéttir og láta svo boltann ganga kanta á milli eins og við erum góðir í. Þannig náðum við tökum á leiknum, þótt það hafi ekki verið þannig að við hefðum einhverja yfirburði í þessum leik,“ sagði Willum.

Þegar um stundarfjórðungur var eftir gerðist umdeilt atvik þegar mark var dæmt af Ólafsvíkingum eftir hornspyrnu. Hvernig blasti það við Willum?

„Mér fannst góður dómari leiksins vera mjög fljótur að dæma, svo ég var alveg rólegur. Frá bekknum séð sýndist mér Þorsteinn [Már Ragnarsson, Víkingi Ó.] fara inn í Stefán [Loga Magnússon, markvörð KR] þegar hann var að reyna að ná til boltans,“ sagði Willum.

Síðan hann tók við liði KR í júní hefur liðið farið úr fallbaráttu í baráttu um Evrópusæti. Fyrir lokaumferðina er liðið með 35 stig í fjórða sætinu en aðeins þrjú stig skilja liðin að í 2.-6. sæti. KR mætir Fylki á heimavelli í lokaumferðinni.

„Við stefndum að þessu; að síðasti leikurinn í mótinu yrði um það að vinna okkur rétt í Evrópukeppni. Það hefur nú tekist og síðasti leikurinn mun snúast um það. Fyrir okkur er það úrslitaleikur og vonandi getum við siglt því heim,“ sagði Willum Þór Þórsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert