Hef fulla trú á okkur en veit ekki með hin liðin

Ágúst Þór Gylfason.
Ágúst Þór Gylfason. mbl.is/Eggert

„Betra liðið tapaði í dag,“ sagði Ágúst Gylfason, þjálfari Fjölnis, eftir að liðið tapaði 1:0 fyrir Stjörnunni í Grafarvogi í gríðarlega mikilvægum leik í baráttunni um Evrópusæti í Pepsi-deild karla í knattspyrnu.

Stjarnan komst með sigrinum upp fyrir Fjölni og Breiðablik og í 2. sæti deildarinnar.

„Þetta er ekki skemmtileg tilfinning. Við stjórnuðum leiknum, sérstaklega fyrri hálfleik, en fengum svo mark á okkur úr föstu leikatriði. Við gerðum atlögu að því að setja jöfnunarmarkið á þá, og fengum nokkur ágætisfæri til þess, en það tókst ekki. Það var kraftur í okkur, við vorum betra liðið, og að hafa ekki fengið neitt út úr þessu er vont,“ sagði Ágúst.

„Við höfum yfirleitt verið betri aðilinn í þessum lykilleikjum, og það er extra-fúlt að sjá á eftir þremur stigum þegar maður er betri,“ bætti Ágúst við.

Skömmu áður en sigurmark Stjörnunnar kom, á 65. mínútu, fór boltinn í hönd Heiðars Ægissonar í vítateig Stjörnunnar. Ágúst var á því að dæma hefði átt vítaspyrnu en það var ekki gert:

„Mér fannst það jú. Boltinn fór klárlega í höndina á honum. Þetta eru oft vafaatriði þegar boltinn fer í hönd leikmanns og það verður hver að dæma fyrir sig. Þetta skiptir ekki öllu máli. Við fengum dauðafæri, boltinn fór í stöngina þarna undir lokin, og maður er bara svekktastur yfir því að við skyldum ekki ná að troða boltanum inn,“ sagði Ágúst.

Fjölnir þarf nú að vinna Breiðablik í lokaumferðinni og treysta á að KR eða Stjarnan nái ekki að vinna sinn leik. KR mætir Fylki en Stjarnan mætir Víkingi Ólafsvík:

„Það verður pottþétt að við náum að vera klárir á laugardaginn. Við þurfum sigur þá og ekkert annað. Ég verð að treysta á að liðin í botnbaráttunni vinni annan hvorn leikinn, og ef við klárum okkar verkefni gengur þetta upp. Að sjálfsögðu hef ég fulla trú á að við vinnum okkar leik, en ég veit ekki með hin liðin,“ sagði Ágúst.

Sjá einnig: Stjarnan upp í 2. sæti

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert