Hilmar Árni er galdramaður

Daníel Laxdal og félagar í Stjörnunni eru komnir upp fyrir …
Daníel Laxdal og félagar í Stjörnunni eru komnir upp fyrir Breiðablik í 2. sæti Pepsi-deildar, með sigrinum á Fjölni í dag. mbl.is/Golli

„Það hefur margoft sannað sig að menn þurfa ekkert að vera „betri“ til að vinna leiki. Auðvitað er það fúlt fyrir Fjölnismenn að fá ekkert út úr þessu en við erum mjög sáttir. Það þarf að klára þessi færi sem maður fær,“ sagði Daníel Laxdal, sem tryggði Stjörnunni 1:0-sigur á Fjölni í Pepsi-deildinni í dag.

Með sigrinum komst Stjarnan upp í 2. sæti deildarinnar fyrir lokaumferðina, þar sem liðið mætir Víkingi Ólafsvík. Fyrir umferðina í dag var Stjarnan hins vegar í 4. sæti og ekki á leið í Evrópukeppni, en liðið komst upp fyrir Fjölni og Breiðablik með sigrinum.

Sigurmarkið skoraði Daníel á 65. mínútu eftir hornspyrnu Hilmars Árna Halldórssonar:

„Hilmar er náttúrulega galdramaður þegar kemur að svona sendingum og ég þurfti rétt svo að sneiða boltann til að setja hann í markið,“ sagði Daníel, sem viðurkenndi fúslega að Fjölnismenn hefðu verið „betri“ aðilinn í leiknum, ef svo er hægt að segja um lið sem þó tapaði leiknum:

„Þetta var erfitt. Í fyrri hálfleik lágu þeir eiginlega á okkur allan tímann og mér fannst við gera þokkalega vel í því að verjast þessari pressu. Gaui [Guðjón Orri Sigurjónsson] var líka frábær fyrir aftan og varði það sem kom á markið. Þegar leið á leikinn sendu þeir fleiri menn fram og mér fannst við höndla það ágætlega. Við börðumst allan tímann og fleygðum okkur fyrir boltann, sem er það sem þarf í svona toppleikjum,“ sagði Daníel.

Þetta var þriðji sigur Stjörnunnar í röð en útlitið var ekki bjart eftir tap gegn Val 11. september:

Geggjað að vera í Evrópukeppni

„Við vissum bara að við þyrftum að klára okkar. Við þurfum núna bara að vinna leikinn á laugardaginn til að tryggja okkur Evrópusætið endanlega. Vonandi myndum við góða stemningu á heimavelli og klárum dæmið,“ sagði Daníel, sem segir Stjörnumenn hafa borið sig vel þrátt fyrir afar erfiða stöðu um tíma:

„Auðvitað er það fúlt þegar lítið gengur upp og manni finnst allt falla á móti manni. Þetta er eins og talað er um í myndinni The Replacements. Þetta er kviksyndi sem maður festist í, og sama hvað maður reynir að komast upp úr því þá sekkur maður áfram. En maður getur ekki annað gert en að halda áfram. Það er fínn mórall í hópnum og það hefur klárlega hjálpað okkur að komast aftur á rétta braut,“ sagði Daníel, vel meðvitaður um mikilvægi sigursins í dag:

„Það er svo geggjað að vera í Evrópukeppni; brjóta upp sumarið og fá að fara í þessar ferðir. Við þekkjum það vel hvað þetta getur verið geggjað og látum það vera hvatningu fyrir okkur.“

Sjá einnig: Stjarnan í 2. sæti

Hef fulla trú á okkur en veit ekki með hin liðin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert