„Sætt að sjá hann inni“

Karl í leik Þróttar og FH fyrr í sumar.
Karl í leik Þróttar og FH fyrr í sumar. mbl.is/Ófeigur

„Við fengum þrjú til fjögur færi fyrir utan mörkin sem við skoruðum en Fylkismenn lágu ansi mikið á okkur. Ég veit ekki hvort þetta var sanngjarnt eða við heppnir að fá stigið, það er erfitt að segja,“ sagði Karl Brynjar Björnsson, sem stóð vaktina í vörn Þróttara gegn Fylki í leik sem endaði 2:2.

Karl Brynjar skoraði fyrsta mark leiksins á 13. mínútu og sitt fyrsta í sumar, með góðum skalla. Hann sagði að tími hafi verið kominn til að skora mark úr föstu leikatriði. 

„Ég held að þetta hafi verið annað markið okkar úr föstu leikatriði í sumar. Við erum búnir að fá aragrúa af færum en það tekst aldrei að troða tuðrunni inn í markið, þannig að það var sætt að sjá hann þarna inni. Það var bara verst að þetta gerðist þegar við vorum fallnir,“ sagði Karl. 

„Tímabilið hefur verið mikil vonbrigði. Við sýndum það á köflum að við erum með lið sem hefði getað haldið sér uppi í þessari deild en við skorum langfæst mörk í deildinni og fáum á okkur langflest. Samkvæmt því áttum við bara skilið að fara niður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert