Það má skipta tímabilinu í þrennt

Gunnlaugur Jónsso, þjálfari ÍA.
Gunnlaugur Jónsso, þjálfari ÍA. mbl.is/Eva Björk

„Við lögðum upp með að þétta raðirnar. Við höfum tapað þrisvar í röð og hafa þau töp farið illa í okkur. Það var lífsnauðsynlegt að ná þremur stigum í dag og sýna að við erum enn á lífi,” segir Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, eftir sigur liðsins á Breiðablik í dag.

„Fyrri hálfleikurinn byrjaði ekki vel og þeir fengu ansi góð færi fyrsta hálftímann og opnuðu okkur vel. Við náðum aðeins að laga það undir lokin. Í seinni hálfleik vorum við ansi þéttir og komumst yfir með góðu marki og fengum góð færi. Það var góður andi og leikgleði í seinni hálfleik og það var gaman að sjá okkur ná þessum sigri.“

Skagamenn höfðu tapað síðustu þremur leikjum. Gunnlaugur viðurkennir að erfitt hafi verið að ná upp stemningunni.

„Ég get viðurkennt að það hefur verið basl. Stemningin hefur dottið aðeins niður. Þróttaraleikurinn fór svolítið illa í okkur, það tap. Ég var á báðum áttum með hollninguna á liðinu fyrir leikinn en í seinni hálfleik sýndum við hvað í okkur býr.”

„Það má skipta tímabilinu í þrennt. Við byrjuðum mjög illa. Svo tók við frábær kafli eftir EM-fríið, 8 sigurleikir af 10. Ein af endurkomum ársins. Við fórum úr fallsæti upp í 5. sæti og gátum verið með í slagnum um Evrópusætið en seinni hlutinn hefur síðan verið slakur. Þrjú töp fyrir sigurinn í dag. Ef við klárum þetta með sigri getum við vel við unað,” segir Gunnlaugur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert