„Þetta var bara mark“

Atvikið sem um er rætt þegar mark var dæmt af …
Atvikið sem um er rætt þegar mark var dæmt af Víkingi Ólafsvík. Ljósmynd/Alfons

Ejub Purisevic, þjálfari Víkings Ólafsvíkur, var nýbúinn að sjá myndbandsupptöku af umdeildu atviki þegar mbl.is tók hann tali eftir 1:0 ósigur liðsins fyrir KR fyrir vestan í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag.

Sjá: Tor­sótt­ur sig­ur KR í Ólafs­vík

Mark var þá dæmt af Ólafsvíkingum þegar um stundarfjórðungur var eftir, en í kjölfar hornspyrnu endaði boltinn í netinu hjá KR. Markið var þó dæmt af eftir klafs milli Stefáns Loga Magnússonar í marki KR og Þorsteins Más Ragnarssonar í liði Ólafsvíkur.

„Þetta var bara mark. Ég vildi ekki mikið tjá mig áður en ég sá þetta, en nú sýndist mér þetta bara hafa verið klárt mark. En við skulum líka leyfa öðrum að dæma um það og það er lítið hægt að gera í þessu núna,“ sagði Ejub við mbl.is.

Eftir ósigurinn er Víkingur tveimur stigum frá falli fyrir lokaumferðina, en neðstu tvö liðin Fylkir og Þróttur skildu jöfn í dag. Um tíma voru Ólafsvíkingar í fallsæti miðað við hvernig leikirnir spiluðust, en Ejub segist ekkert hafa haft augun á stöðunni í hinum leiknum.

„Bara þegar hann var búinn, annars ekki. Ég var að spá í leikinn hjá mínu liði. Mér fannst við spila vel og áttum að komast yfir 1:0. Alveg fram að marki spiluðum við vel, sem datt svo aðeins niður. En allur síðari hálfleikurinn fannst mér góður og við áttum fín færi. Ég er því mjög ánægður með hvernig við spiluðum en ekki ánægður með úrslitin,“ sagði Ejub.

Víkingur Ó. mætir Stjörnunni á útivelli í síðustu umferðinni og er sem fyrr segir tveimur stigum fyrir ofan fall með 21 stig. Hlutirnir eru því í höndum Víkinga.

„Við förum í leikinn á móti Stjörnunni til þess að vinna. Ef 21 stig dugir til að halda sér í deildinni kemur það í ljós. Við getum ekki haft áhrif á það sem gerist í öðrum leikjum. Við þurfum að gefa okkur alla í þann leik og fá stig úr honum,“ sagði Ejub Purisevic við mbl.is.

Ejub Purisevic var svekktur með úrslitin.
Ejub Purisevic var svekktur með úrslitin. mbl.is/Þórður
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert