„Við erum hundfúlir“

Hermann Hreiðarsson.
Hermann Hreiðarsson. mbl.is/Eggert

Hermann Hreiðarsson, þjálfari Fylkismanna, var að vonum vonsvikinn eftir 2:2 jafntefli við Þrótt Reykjavík á Floridanavellinum í Árbænum. 

„Þetta var dauðafæri fyrir okkur að koma okkur upp úr fallsæti. Fyrri hálfleikur bauð upp á að klára þennan leik. Við vorum með þvílíka yfirburði. Við verðum að nýta okkur þá og ganga frá leiknum, annars verður manni refsað. Það kom á daginn,“ segir Hermann. 

Hann er óánægður með að ekki hafi verið dæmt víti þegar Ragnar Bragi Sveinsson féll í grasið í síðari hálfleik eftir fyrirgjöf frá Alberti Ingasyni. 

„Það var víti, ég er búinn að sjá það. En við fengum bara eitt stig í dag og erum hundfúlir. Það er bara einn leikur eftir og við verðum að vinna hann. Það er ekkert flókið.“

Hann kveðst vongóður um að það takist og að Fylkir haldi sér í deildinni. „Við höfum aldrei misst trúna. Það breytist ekkert. Við förum í síðasta leikinn til að vinna hann, það er alveg klárt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert