Róbert í aðalhlutverki í sigri á FH

Davíð Örn Atlason og Kristján Flóki Finnbogason eigast hér við.
Davíð Örn Atlason og Kristján Flóki Finnbogason eigast hér við. mbl.is/Eggert Jóhannsson

Víkingur Reykjavík sigraði FH 1:0 í 21. umferð efstu deildar karla í knattspyrnu í dag en leikið var á Víkingsvellinum. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

FH-ingar voru krýndir meistarar eftir síðustu umferð og Víkingur var þá úr baráttu um Evrópusæti fyrir leikinn í dag, svo það var ekki mikið í húfi.

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, gerði þrjár breytingar á liðinu á meðan Víkingar héldu óbreyttu liði. Hafnfirðingar fengu urmul af færum í leiknum þar sem Atli Guðnason var fremstur í flokki en Róbert Örn Óskarsson sá við honum oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Róbert gekk til liðs við Víking frá FH fyrir tímabilið en hann hefur verið afar öflugur í sumar og var besti maður vallarins í dag.

Alex Freyr Hilmarsson skoraði eina mark leiksins í dag en það kom á 14. mínútu. Hann slapp þá í gegnum vörn FH, fór framhjá Gunnari Nielsen í markinu áður en hann lagði knöttinn í netið.

Framlína Víkings var góð í dag. Óttar, Alex Freyr og Tufa voru hættulegir og sífellt að skapa sér færi á meðan vörn FH var í miklu basli. Böðvar Böðvarsson var nálægt því að koma knettinum í eigið net í síðari hálfleik en stöngin bjargaði áður en Nielsen handsamaði knöttinn.

Víkingar fóru því með sigur af hólmi, 1:0. Liðið er í 8. sæti með 29 stig þegar ein umferð er eftir en FH-ingar eru eins og flestir vita í toppsætinu með 42 stig.

Víkingur R. 1:0 FH opna loka
90. mín. Leik lokið Víkingar sigra FH 1:0 á heimavelli. FH fékk mörg tækifæri til að skora í dag en það gekk þó ekki upp. Róbert Örn var hetjan gegn sínum gömlu félögum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert