Valur vann en Blikar héldu 2. sætinu

Valur vann Breiðablik 1:0 í lokaumferð Pepsi-deildar kvenna í knattspyrnu í dag og enda liðin því jöfn að stigum. Breiðablik fær hins vegar 2. sætið og silfurverðlaunin vegna mun betri markatölu.

Breiðablik átti enn möguleika á að verja Íslandsmeistaratitilinn fyrir þessa lokaumferð en þurfti að vinna og treysta á að Stjarnan tapaði gegn FH, en svo varð alls ekki.

Dóra María Lárusdóttir skoraði eina mark leiksins á Hlíðarenda strax á 5. mínútu með laglegum hætti yfir Sonný Láru Þráinsdóttur, eftir góðan undirbúning Vesnu Smiljkovic.

Blikum óx ásmegin þegar leið á fyrri hálfleikinn og var Svava Rós Guðmundsdóttir sérstaklega ógnandi, en vörn Vals var sterk og Sandra Sigurðardóttir örugg í markinu. Hún varði frá Svövu í dauðafæri snemma í seinni hálfleik og sá við fleiri góðum tilraunum. Sonný Lára varði sömuleiðis í tvígang afar vel frá Hlín Eiríksdóttur sem lék í fremstu víglínu Vals í fjarveru Margrétar Láru Viðarsdóttur, sem er meidd.

Breiðablik missti Fanndísi Friðriksdóttur meidda af velli þegar um korter var eftir af leiknum, en hún var spörkuð niður um leið og hún skoraði mark sem dæmt var af vegna rangstöðu.

Tímabilinu er ekki lokið hjá Breiðabliki en liðið leikur gegn sænsku meisturunum í Rosengård á Kópavogsvelli á miðvikudag, í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Valur 1:0 Breiðablik opna loka
90. mín. Hallbera Guðný Gísladóttir (Breiðablik) á skot framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert