„Ég tek 100% ábyrgð á þessu öllu“

Hermann Hreiðarsson
Hermann Hreiðarsson mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta eru bara eins hörmulegt og það getur verið held ég. Það er ekkert flóknara en það,“ voru fyrstu viðbrögð Hermanns Hreiðarssonar, þjálfara Fylkis, þegar mbl.is ræddi við hann eftir að liðið féll úr efstu deild með 3:0-tapi fyrir KR í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í dag.

Sjá frétt mbl.is: KR náði Evrópusæti og felldi Fylki

„Það var nú mikill kraftur í okkur og ég var ánægður með framlagið í heildina. En þetta var ekkert að gerast allt í dag, við erum búnir að fá fullt af tækifærum til þess að ná í stigin sem til þurfti. Ég er svekktastur með að vera að sýna flotta frammistöðu en ekki náð í stigin,“ sagði Hermann.

„Þetta er alveg gríðarlega og hörmulega svekkjandi og ég tek 100% ábyrgð á þessu öllu. Maður hefur fengið frábæran stuðning bæði frá stjórninni og öllum leikmönnum, þar sem við höfðum alltaf bullandi trú á þessu,“ sagði Hermann.

Fylkir féll nú úr efstu deild eftir sautján ára samfellda veru á meðal þeirra bestu. Hvernig telur Hermann félagið vera í stakk búið til þess að takast á við þennan mótbyr?

„Þetta er frábært félag með frábærum leikmönnum og það er allt til staðar. Það er engin spurning að félagið mun tækla þetta eins og hvert annað verkefni og rífa sig beint upp aftur,“ sagði Hermann. En hvað með framhaldið hjá honum, mun hann halda áfram sem þjálfari?

„Ég eiginlega bara veit það ekki og það er eins og það er. Það er aukaatriði svo sem, vonandi bara að félagið taki skref í rétta átt og það er það eina sem skiptir máli. Ég þarf að meðtaka þetta og ætla bara að fara í fýlu og grenja,“ sagði Hermann.

Á þá eftir að taka ákvörðun um það hvort þú munir halda áfram með félagið eða ekki?

„Ég bara veit það ekki. Ég veit ekki neitt og er bara fúll núna,“ sagði Hermann Hreiðarsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert