Meistararnir kvöddu með jafntefli

Mikkel Maigaard Jakobsen, leikmaður ÍBV, og Kristján Flóki Finnbogason, leikmaður …
Mikkel Maigaard Jakobsen, leikmaður ÍBV, og Kristján Flóki Finnbogason, leikmaður FH, berjast um boltann í leik liðanna í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslandsmeistarar FH náðu ekki að fagna meistaratitlinum með sigri í lokaumferð Pepsi-deildar karla  í knattspyrnu. FH mætti ÍBV í Kaplakrika og þar skildu liðin jöfn, 1:1. FH fagnaði sínum áttunda Íslandsmeistaratitli á aðeins 12 árum en Eyjamenn enda í níunda sæti deildarinnar.

Bæði lið gátu leyft sér að mæta nokkuð afslöppuð til leiks í dag. FH var auðvitað þegar búið að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn og Eyjamenn voru 99% sloppnir við fall. Leikurinn bar þess merki að lítið var undir og frekar róleg stemming ríkti í Kaplakrika.

Mikkel Maigaard fékk frábært færi  til að koma Eyjamönnum snemma leiks en hnitmiðað skot hans rétt utan teigs, small í stönginni. Markavélin Atli Viðar Björnsson fékk sömuleiðis fínt færi en viðstöðulaust skot hans fór hárfínt framhjá.

Fyrri hálfleikurinn leið bara áfram í rólegheitum og það var ekki fyrr en Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, dómari leiksins, var búinn að flauta til loka hálfleiksins að eitthvað örlítið líf færðist í leikmenn. Þá áttust Avni Pepa og Kassim Doumbia við í teig ÍBV, sem lauk með því að báðir fóru í bókina hjá Vilhjálmi. Doumbia var mjög ósáttur og þurfti nokkra samherja til að róa kappann.

Seinni hálfleikurinn fór svipað af stað og sá fyrri endaði. Liðin voru frekar róleg í tíðinni en það voru Eyjamenn sem létu sverfa til stáls á undan. Fín sending Pablo Punyeds inn á teiginn var skölluð í ská og inn af miðverðinum efnilega, Devon Má Griffin. Fyrsta mark Devons Más í efstu deild og ÍBV með forystu.

FH jafnaði metin skömmu fyrir leikslok þegar vítaspyrna var dæmd á Avni Pepa, fyrir að handleika knöttinn innan vítateigs. Steven Lennon fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi.

Fleira markvert gerðist ekki í leiknum og FH-ingar fögnuðu að vonum vel og innilega þegar bikarinn fór á loft. Til hamingu FH!

FH 1:1 ÍBV opna loka
90. mín. Sören Andreasen (ÍBV) á skot sem er varið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert