Get tekið undir vissa gagnrýni

Heimir Guðjónsson hefur fengið nokkrar flugferðir hjá FH-ingum.
Heimir Guðjónsson hefur fengið nokkrar flugferðir hjá FH-ingum. mbl.is/Golli

Heimir Guðjónsson hefur verið aðalþjálfari FH frá árinu 2008 en þessi mikli sigurvegari hefur verið í þjálfarateymi FH í öllum átta Íslandsmeistaratitlum félagsins frá 2004. Heimir var brosmildur í miðjum fagnaðarlátunum eftir 1:1 jafntefli gegn ÍBV í lokaumferð Pepsi-deildarinnar.

„Við vorum ekkert sérstakir í þessum leik. Það var samt betra að enda þetta á jafntefli en að tapa hér á heimavelli. Það er bara erfitt að mótivera sig fyrir svona leiki sem hafa kannski ekki mikla þýðingu eins og hefur verið raunin í síðustu tveimur leikjum. Við erum samt verðskuldaðir meistarar að mínu mati.“

Heimir hefur, þrátt fyrir magnaðan árangur með FH, ennþá nokkur markmið sem hann vill ná með liðinu.

„Ég hef bara unnið bikarinn einu sinni og svo langar okkur að gera betur í Evrópukeppninni. Við erum alltaf að læra og við þurfum bara að nýta okkur þann lærdóm og koma klárir að ári.“

Ekki miklar breytingar á leikmannahópnum

Heimir segir FH ekkert ætla að fara í róttækar breytingar á sínum leikmannahópi eftir þetta sumar en einhverjir leikmenn liðsins eru samningslausir í lok tímabilsins.

„Við leyfum bara þessu tímabili að klárast og byrjum svo bara í næstu viku að spá í þessa hluti. Við höfum verið með stöðugleika í okkar leikmannamálum og það hefur hjálpað okkur. Ég á nú ekkert von á einhverjum svakalegum breytingum.“

Fótboltinn sem leikinn hefur verið í Pepsi-deildinni þetta árið hefur verið gagnrýndur og þar hefur FH fengið sinn skerf en liðið þykir nokkuð varnarsinnað í sinni nálgun á vellinum.

„Ég get alveg tekið undir þá gagnrýni. Við vinnum þetta mót og skorum 32 mörk. Þetta er níunda árið sem ég er með liðið og það minnsta sem við höfum skorað fram að þessu voru 46 mörk, þannig að ég get alveg tekið undir það að við hefðum viljað spila betri sóknarleik. Á endanum snýst þetta um að vinna, við erum verðugir meistarar og það erum við sáttir við,“ sagði hinn ótrúlega sigursæli þjálfari FH, Heimir Guðjónsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert