Sá besti var meiddur í allt sumar

Kristinn Freyr Sigurðsson fór á kostum í sumar og skoraði …
Kristinn Freyr Sigurðsson fór á kostum í sumar og skoraði 13 mörk í Pepsi-deildinni. Hér fagnar hann einu þeirra. mbl.is/Golli

„Það er að sjálfsögðu mjög ánægjulegt að leikmennirnir sem maður spilar á móti meti þetta þannig að maður sé bestur í deildinni. Vonandi get ég haldið áfram að spila svona minn leik,“ sagði Kristinn Freyr Sigurðsson, leikmaður Vals og besti leikmaður Íslandsmóts karla í knattspyrnu 2016.

Kristinn Freyr, sem varð bikarmeistari með Val og næstmarkahæstur í Pepsi-deildinni með 13 mörk, fór á kostum í mörgum leikjum í sumar og var valinn bestur af leikmönnum deildarinnar. Þá miklu viðurkenningu hlaut hann þrátt fyrir að spila með liði sem endaði í 5. sæti deildarinnar, en sú varð niðurstaðan eftir 1:0-sigur Vals á ÍA í dag.

Skoða hvað er í boði úti en vil fara að vinna Íslandsmeistaratitilinn

„Ég er að sjálfsögðu ánægður með tímabilið mitt, sérstaklega seinni hlutann. Fyrri hlutinn var kannski ekki sama „sprengja“ og seinni hlutinn en þetta var fínt mót fyrir mig persónulega. Auðvitað var gaman að verða bikarmeistari aftur en hins vegar vil ég, og Valur, gera mun betur í deildinni. Ég er búinn að vera fimm tímabil hjá Val og fjögur þeirra höfum við endað í 5. sæti. Það er frekar þreytt. Ég vil fara að vinna þennan Íslandsmeistaratitil,“ sagði Kristinn Freyr, sem telur sig vel geta afrekað það í Valsbúningnum:

„Já, það held ég svo sannarlega. Ef að Valur heldur svipuðum mannskap og bætir frekar í, og heldur Óla og Bjössa [Ólafi Jóhannessyni og Sigurbirni Hreiðarssyni, þjálfurum], þá erum við til alls líklegir á næstu árum.“

Kristinn Freyr vonast til þess að komast út í atvinnumennsku …
Kristinn Freyr vonast til þess að komast út í atvinnumennsku í vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Kristinn, sem verður 25 ára á jóladag, vill þó fyrst reyna að komast að í atvinnumennsku. Hann vildi þó ekkert gefa uppi um hverjir möguleikar sínir væru í þeim málum:

„Ég veit ekki neitt um það. Eftir helgi, þegar ég verð búinn að hvíla mig, fer maður að skoða hvað maður getur gert,“ sagði Kristinn, sem er að renna út á samningi hjá Val en gæti vel hugsað sér að spila áfram á Hlíðarenda:

Óli og Bjössi eiga stóran, stóran þátt í þessu

„Ég er mjög opinn fyrir því að spila með Val, sérstaklega ef Óli og Bjössi verða áfram, en það þurfa að nást samningar og svona. Eins og staðan er núna er ég samt meira að hugsa um hvort eitthvað sé í boði úti.“

Það er athyglisvert að Kristinn Freyr skuli hafa átt svo magnað tímabil sem raun ber vitni þrátt fyrir að hafa glímt við nárameiðsli síðan í janúar. Það hvernig tekist hefur að eiga við þessi meiðsli er þó aðeins einn af áhrifaþáttunum á bakvið glæsilegt tímabil þessa sókndjarfa miðjumanns:

„Að sjálfsögðu eru það margir hlutir sem spila inn í það. Óli og Bjössi eiga svo sannarlega stóran, stóran þátt í árangri mínum í sumar. Það sama má segja um Kjartan styrktarþjálfara og Einar Óla sjúkraþjálfara, sem hefur haldið mér gangandi því ég hef glímt við meiðsli í allt sumar, sérstaklega fyrri hlutann. Ég var langt frá því að vera 100% í fyrri hlutanum en náði að beita mér betur í þeim seinni. En svo eru það alls konar fleiri þættir sem hafa hjálpað mér,“ sagði Kristinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert