Stjarnan tryggði Evrópusætið með glans

Stjarnan sigraði Víking Ólafsvík, 4:1, í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Garðabænum í dag. Stjarnan hafnaði í öðru sæti, með 39 stig og leikur í Evrópukeppni á næsta tímabili. Víkingar enduðu í 10. sæti með 21 stig og sluppu við fall.

Heimamenn hófu leikinn af miklum krafti, enda vissu að þeir að ekkert nema sigur gulltryggði sæti þeirra í Evrópukeppni. Gestirnir frá Ólafsvík virtust vita af því að Fylkir þyrfti að vinna í Vesturbænum gegn KR og voru full rólegir.

Norðanmaðurinn Ævar Ingi Jóhannesson skoraði eina mark fyrri hálfleiks á 19. mínútu. Hann fékk þá boltann í kjölfar hornspyrnu frá hægri, þrumaði í varnarmann, fékk boltann aftur og þrumaði beint upp í samskeytin.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik en talsverð harka hljóp í leikinn og þurfti Þóroddur dómari að lyfta gula spjaldinu fjórum sinnum en bæði lið virkuðu pirruð á störfum dómarans.

Heimamenn hófu seinni hálfleikinn af sama kraft og þann fyrri. Varamaðurinn Veigar Páll Gunnarsson skallaði yfir markið úr dauðafæri eftir tæplega tveggja mínútna leik í seinni hálfleik. Veigar kom inn á um miðjan fyrri hálfleik í stað Hilmar Árna Halldórssonar sem meiddist.

Veigar skoraði annað mark Stjörnunnar einungis þremur mínútum eftir að hann skallaði yfir markið. Eftir að Martinez í marki Ólafsvíkinga varði skot Ævars Inga Jóhannessonar út í teiginn barst boltinn á Guðjón Baldvinsson. Hann sá að Veigar var í upplögðu færi, rúllaði boltanum á hann og Veigar skoraði með skoti sem fór af varnarmanni og inn.

Gestirnir minnkuðu muninn á 57. mínútu. Martin Svensson spændi upp vinstri kantinn og Heiðar Ægisson braut klaufalega á honum innan teigs og vítaspyrna dæmd. Tokic skoraði af miklu öryggi úr vítaspyrnunni og minnkaði muninn í 2:1.

Stjörnumenn voru fljótir að slökkva vonarneista gestanna um að krækja í stig. Guðjón Baldvinsson komst upp hægra megin og renndi boltanum fyrir markið á varamanninn Arnar Má Björgvinsson. Sá síðarnefndi gat ekki annað en skorað og staðan 3:1.

Varamaðurinn síungi Veigar Páll Gunnarsson skoraði annað mark sitt og fjórða mark Stjörnunnar tuttugu mínútum fyrir leikslok. Hann fékk sendingu inn fyrir vörn gestanna og skoraði af miklu öryggi.

Stjarnan tekur því þátt í forkeppni Evrópudeildarinnar næsta sumar og Ólsarar halda sæti sínu á meðal þeirra bestu en Þróttur R. og Fylkir féllu niður í næstefstu deild.

Stjarnan 4:1 Víkingur Ó. opna loka
90. mín. Áhorfendur syngja og tralla. Hinar hefðbundnu 90 mínútur eru liðnar en ég sá ekki hvað uppbótartíminn er langur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert